Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið sendi í síðustu viku frá sér skýrslu þar sem lagt er mat á þjóðhagslegan kostnað af verkfalli sjómanna. Skýrslan er unnin að tilstuðlan sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sem skipaði nefnd fulltrúa úr fjórum ráðuneytum auk fulltrúa frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og sérfræðingum frá Íslenska sjávarklasanum.
Svo vitað sé er skýrsla þessi fyrsta tilraunin sem gerð er til að ná utan um þau efnahagslegu áhrif sem víðtæk vinnustöðvun meðal sjómanna, og þar af leiðandi mjög víðtæk framleiðslustöðvun í íslenskum sjávarútvegi, hefur á íslenska hagkerfið.
Í samandregnum niðurstöðum skýrslunnar kemur m.a. fram að áhrifa verkfallsins gætir víða og snertir fjárhagslega hagsmuni fjölmargra fyrirtækja, kjör ýmissa stétta og fjármál hins opinbera til skemmri og lengri tíma. Áhrifanna gætir með nokkuð misjöfnum hætti en gróflega áætlað tekjutap sveitarfélaga vegna lækkaðra útsvarsgreiðslna fiskverkafólks og sjómanna til 10. febrúar sl. er metið á rétt ríflega 1000 milljónir króna.



Trillan er liður í því að stuðla að auknum áhuga ungs fólks á íslenskum sjávarútvegi. Ekki hefur verið um auðugan garð að gresja í kennsluefni tengt sjávarútveginum í grunnskólum landsins og margir sem gera sér jafnvel ekki grein fyrir því að sjávarútvegurinn er ein meginuppistaðan í íslensku samfélagi.



