Stjórn lýsir yfir þungum áhyggjum

jola01Á stjórnarfundi Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga sem haldinn var 15. janúar sl. var fjallað um viðskiptabann Rússlands á Ísland og eftirfarandi bókun samþykkt samhljóða:

Stjórn Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga lýsir yfir þungum áhyggjum vegna viðskiptabanns Rússlands á íslenskar sjávarafurðir. Ljóst er að viðskiptabannið hefur mikil áhrif á gjaldeyrisöflun þjóðarinnar og hefur hlutfallslega mun meiri áhrif á Íslandi samanborið við aðrar Evrópuþjóðir og Bandaríkin. Þau gögn sem fyrir liggja sýna að tekjutap sjómanna og landverkafólks er gríðarlegt vegna innflutningsbannsins, eða allt að 2,5 milljarðar að mati Byggðastofnunar. Þá mun bannið koma niður á sveitar- og hafnarsjóðum landsins, og metur Byggðastofnun það tap um 400 milljónir króna. Tekjutap sveitarfélaganna kann að koma niður á þjónustu við íbúa.

Stjórnin telur að samráð af hendi ríkisstjórnar Íslands hefði átt að verið við sjávarútvegssveitarfélög við undirbúning aðgerða um viðskiptaþvinganir á Rússland og skilgreina fyrirfram með hvaða hætti það tjón yrði bætt sem þau yrðu fyrir, myndu Rússnesk stjórnvöld beita íslenska þjóð viðskiptaþvingunum á móti. Það var ekki gert. Því er ljóst að verði sömu stefnu fylgt af hendi Íslands hvað þetta viðskiptabann varðar, þarf að leita leiða til að bæta íslenskum sjávarútvegssveitarfélögum það tjón sem af áframhaldandi viðskipabanni mun hljótast. Rétt eins og við önnur áföll sem dynja á. Er þess krafist að nú þegar verði sest niður með fulltrúum samtakanna til að fara yfir þau mál og finna leiðir í því hvernig tjónið verði bætt. Þá er ónefnt það framtíðartap sem mun skapast með tapaðri markaðshlutdeild, sem mun þá hafa meiri áhrif til framtíðar fyrir sjávarútvegssveitarfélög. Formanni falið að koma málinu á framfæri við þá aðila sem það snerta.