Íslenskur sjávarútvegur hefur náð þeim einstaka árangri að uppfylla markmið Parísarsamkomulagsins. Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri SFS, fjallaði um aðgerðir innan sjávarútvegarins til að draga úr losun gróðurhúsaloftegunda á umhverfissráðstefnu Gallup nú nýlega.
Í máli Heiðrúnar Lindar kom m.a. fram, að það væri fjárhagslega hagkvæmt að draga úr losun. Sjávarútvegurinn hafi gert sér grein fyrir því og tekist hafi að draga markvisst úr losun með fjárfestingu í betri skipum og nýrri tækni.
Á ráðstefnunni kynnti Gallup umhverfiskönnun 2017, umfangsmikla könnun á afstöðu Íslendinga til umhverfismála. Athygli vakti að sögn Heiðrúnar Lindar að samkvæmt könnuninni, virðist margir telja að lítill árangur hafi náðst á vettvangi sjávarútvegsins í að takmarka losun gróðurhúsalofttegunda.
„Góð saga sjávarútvegarins í þessum efnum er því augljóslega ekki á almennu vitorði. Íslenskur sjávarútvegur hefur, fyrir sitt leyti og ein atvinnugreina hér á landi, náð markmiðum Parísarsamkomulagsins. Sjávarútvegur hefur þannig dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda um rúmlega 40% frá árinu 1990 og hyggst gera enn betur á komandi árum. Það er auðsýnilegt verk að vinna, að koma þessum góðu fréttum betur á framfæri,“ sagði framkvæmdastjóri SFS á umhverfisráðstefnunni, sem fram fór í Hörpu 11. janúar sl.
Ljósm. Stefán fyrir visir.is
http://www.visir.is/g/2014140229281