Hvað er strandbúnaður

Ef þú villt kynna þér fiskeldi, skeldýra- og þörungarækt þá er tilvalið á mæta á ráðstefnuna Strandbúnað 2018 sem haldin verður á Grand Hóteli Reykjavík, dagana 19.-20. mars.

Tilgangur ráðstefnunnar er að stuðla að faglegri og fræðandi umfjöllun um strandbúnað og styðja þannig við menntun, rannsóknir, þróun og stefnumótun greinarinnarinnar.

Á ráðstefnunni eru 10 málstofur og um 60 erindi og eru fyrirlesarar bæði innlendir og erlendir.

Sjávarútvegurinn hefur dregið úr losun um 44%

Íslenskur sjávarútvegur hefur náð þeim einstaka árangri að uppfylla markmið Parísarsamkomulagsins. Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri SFS, fjallaði um aðgerðir innan sjávarútvegarins til að draga úr losun gróðurhúsaloftegunda á umhverfissráðstefnu Gallup nú nýlega.

Í máli Heiðrúnar Lindar kom m.a. fram, að það væri fjárhagslega hagkvæmt að draga úr losun. Sjávarútvegurinn hafi gert sér grein fyrir því og tekist hafi að draga markvisst úr losun með fjárfestingu í betri skipum og nýrri tækni.

Á ráðstefnunni kynnti Gallup umhverfiskönnun 2017, umfangsmikla könnun á afstöðu Íslendinga til umhverfismála. Athygli vakti að sögn Heiðrúnar Lindar að samkvæmt könnuninni, virðist margir telja að lítill árangur hafi náðst á vettvangi sjávarútvegsins í að takmarka losun gróðurhúsalofttegunda.

„Góð saga sjávarútvegarins í þessum efnum er því augljóslega ekki á almennu vitorði. Íslenskur sjávarútvegur hefur, fyrir sitt leyti og ein atvinnugreina hér á landi, náð markmiðum Parísarsamkomulagsins. Sjávarútvegur hefur þannig dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda um rúmlega 40% frá árinu 1990 og hyggst gera enn betur á komandi árum. Það er auðsýnilegt verk að vinna, að koma þessum góðu fréttum betur á framfæri,“ sagði framkvæmdastjóri SFS á umhverfisráðstefnunni, sem fram fór í Hörpu 11. janúar sl.

Ljósm. Stefán fyrir visir.is

http://www.visir.is/g/2014140229281

Skipulag haf- og strandsvæða

Samtök sjávarútvegsfélaga og Samtök sveitarfélaga á Austurlandi standa fyrir málþingi um skipulag haf- og strandsvæða miðvikudaginn 17. maí nk. frá kl. 09:15-12:00, í Þórðarbúð Austurvegi, Reyðarfirði.

Dagskrá

Ávarp: Björt Ólafsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra

Skipulag haf- og strandsvæða: Fyrir hvern og í hvaða tilgangi?
  • Steinunn Fjóla Sigurðardóttir, umhverfis- og auðlindaráðuneyti
  • Aðalsteinn Óskarsson, Fjórðungssamband Vestfirðinga
  • Páll Björgvin Guðmundsson, Fjarðabyggð
Pallborðsumræður
  • Björt Ólafsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra
  • Aðalsteinn Óskarsson, Fjórðungssamband Vestfirðinga
  • Guðjón Bragason, Samband íslenskra sveitarfélaga
  • Hafdís Hafliðadóttir, Skipulagsstofnun
  • Páll Björgvin Guðmundsson, Fjarðabyggð
  • Steinunn Fjóla Sigurðardóttir, umhverfis- og auðlindaráðuneyti
Samantekt
  • Jón Björn Hákonarson, varaformaður stjórnar Sambands sveitarfélaga á Austurlandi

Fundarstjóri: Gauti Jóhannesson, formaður Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga

Í lok málþingsins verður boðið upp á sameiginlegan hádegisverð. Nauðsynlegt er að skrá sig
á málþingið og í hádegisverð með því að senda tölvupóst á ssa@ssa.is fyrir 15. maí nk.

Ábyrgð aðila er mikil

Á fundi stjórnar Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga sem haldinn var 3. febrúar sl. var fjallað um sjómannaverkfallið sem nú stendur yfir. Eftirfarandi bókun var samþykkt samhljóða:

Stjórn Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga lýsir yfir miklum áhyggjum af þeirri stöðu sem komin er upp í sveitarfélögum allt í kringum landið í tengslum við verkfall sjómanna. Verkfallið hefur nú staðið í u.þ.b tvo mánuði og er farið að hafa mikil áhrif sem ekki einungis ná til samningsaðila, heldur einnig stöðu landverkafólks og þeirra sem vinna óbein störf í sjávarútvegi og eru ekki aðilar að kjarasamningi sjómanna og útgerðarmanna. Í jafn mikilvægri atvinnugrein og sjávarútvegi, er ábyrgð aðila mikil. Ljóst er að staðan er þegar orðin alvarleg í mörgum sjávarútvegssveitarfélögum og stefnir í óefni að óbreyttu.

Stjórn Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga hvetur samningsaðila og ríkisstjórn Íslands til að leita allra leiða til að liðka fyrir lausn málsins, þannig að koma megi í veg fyrir frekara tekjutap þjóðarbúsins í heild sinni.

Víðtæk áhrif verkfalls sjómanna

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið sendi í síðustu viku frá sér skýrslu þar sem lagt er mat á þjóðhagslegan kostnað af verkfalli sjómanna. Skýrslan er unnin að tilstuðlan sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sem skipaði nefnd fulltrúa úr fjórum ráðuneytum auk fulltrúa frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og sérfræðingum frá Íslenska sjávarklasanum.

Svo vitað sé er skýrsla þessi fyrsta tilraunin sem gerð er til að ná utan um þau efnahagslegu áhrif sem víðtæk vinnustöðvun meðal sjómanna, og þar af leiðandi mjög víðtæk framleiðslustöðvun í íslenskum sjávarútvegi, hefur á íslenska hagkerfið.

Í samandregnum niðurstöðum skýrslunnar kemur m.a. fram að áhrifa verkfallsins gætir víða og snertir fjárhagslega hagsmuni fjölmargra fyrirtækja, kjör ýmissa stétta og fjármál hins opinbera til skemmri og lengri tíma. Áhrifanna gætir með nokkuð misjöfnum hætti en gróflega áætlað tekjutap sveitarfélaga vegna lækkaðra útsvarsgreiðslna fiskverkafólks og sjómanna til 10. febrúar sl. er metið á rétt ríflega 1000 milljónir króna.

Verstöðin Ísland

IMG_1632Í dag gaf Íslenski sjávarklasinn út skýrsluna Verstöðin Ísland: hagræðing og landfræðileg samþjöppun í íslenskum sjávarútvegi 1993-2003 en Samtök sjávarútvegssveitarfélaga styrktu útgáfu skýrslunnar fyrr á árinu.

Margt fróðlegt kemur fram í skýrslunni sem mun nýtast samtökunum í sinni hagsmunabaráttu á næstu árum.

Við hvetjum aðildarsveitarfélög til að kynna sér skýrsluna en hana má nálgast hér.

Læra um sjávarútveginn í gegnum nýja heimasíðu og smáforrit

Sjávarklasinn kynnir Trilluna, nýtt smáforrit (app) um íslenskan sjávarútveg, ásamt spurningaleik, sem ætlað er til fræðslu á grunnskólastigi. Markmið Trillunnar er að nemendur kynnist sjávarútveginum og hlutverki hans í íslensku samfélagi á skemmtilegan og líflegan máta. Sjávarútvegurinn spannar mjög vítt svið og ætlunin að kveikja áhuga nemenda á ólíkum hliðum þessa rótgróna en fjölbreytta atvinnuvegs.

Trillan varð til upp úr samstarfi menntastofnana í menntahópi Sjávarklasans. Heiðdís Skarphéðinsdóttir verkefnisstjóri hjá Sjávarklasanum hafði umsjón með þessu verkefni og undirbúningi þess fyrir hönd klasans. Milja Korpela hönnuður klasans hafði með höndum hönnun útlits.

Með heimasíðunni og forritinu verður bæði hægt að lesa sér til gagns og gaman sem og prófa kunnáttu sína á gagnvirkan og skemmtilegan hátt. Um er að ræða nýtt tól sem kennarar, foreldrar og aðrir geta notað til að fræða ungmenni um sjávarútveginn og tengdar atvinnugreinar.

untitledTrillan er liður í því að stuðla að auknum áhuga ungs fólks á íslenskum sjávarútvegi. Ekki hefur verið um auðugan garð að gresja í kennsluefni tengt sjávarútveginum í grunnskólum landsins og margir sem gera sér jafnvel ekki grein fyrir því að sjávarútvegurinn er ein meginuppistaðan í íslensku samfélagi.

Mikil breyting hefur orðið í íslensku skólakerfi á síðustu árum. Kennslan er orðin fjölbreyttari og fer að einhverju leyti fram í gegnum tölvur. Mikil eftirspurn er eftir íslenskum kennsluforritum og fjölgar þeim hratt. Það þykir því mikilvægt að mæta þessari þróun og kveikja áhuga nemenda á sjávarútvegi í gegnum smáforrit fyrir snjallsíma og spjaldtölvur.

Í aðalnámskrá grunnskólanna er þess krafist að nemendur öðlist skilning á sögu landsins og atvinnulífi. Verkefnið tengist því beint inn í aðalnámskrá grunnskólanna. Lífleg uppsetning fræðslu og gagnvirkra leikja er þó hannað með stóran markhóp í huga því ætlunin er að áhrifin séu víðfeðm og forritið innihaldi eitthvað sem allir hafi áhuga á.

Trillan er styrkt af Rannsóknarsjóði síldarútvegsins og Samtökum sjávarútvegssveitarfélaga. Námsefnið er fengið að stórum hluta frá Háskólanum á Akureyri (Bjarni Eiríksson, Hreiðar Þór Valtýsson og Hörður Sævaldsson) og neðansjávarmyndir eru frá Erlendi Bogasyni. Teikningar af fiskum eru eftir Jón Baldur Hlíðberg sem heldur úti vefsíðunni fauna.is. Annað efni er unnið af Íslenska sjávarklasanum.

Hægt er að nálgast forritið í Appstore og Playstore en heimasíða verkefnisins er www.trillan.is.

Nánari upplýsingar veitir Þór Sigfússon, hjá Íslenska sjávarklasanum, í síma 618-6200.