Endurnýjaður kynningarvefur stjórnvalda um sjávarútveg

Ábyrg og sjálfbær nýting auðlinda hafsins er hornsteinn stefnu íslenskra stjórnvalda í  sjávarútvegsmálum. Vefurinn fisheries.is er upplýsingavefur stjórnvalda á ensku um íslenskan sjávarútveg og hefur hann nú verið endurnýjaður.

Markmiðið með vefnum er að sýna með rökum að Íslendingar verðskuldi traust í sjávarútvegsmálum og eru aflareglur fyrir alla helstu nytjastofna og yfirlýsing stjórnvalda um ábyrgar fiskveiðar grunnurinn að því. Vefnum er skipt upp í sex efnisflokka og fjalla þeir um i) stjórnun fiskveiða, ii) helstu fisktegundir, iii) alþjóðlegt samstarf, iv) fiskvinnslu, v) fiskeldi og vi) söguágrip.