Læra um sjávarútveginn í gegnum nýja heimasíðu og smáforrit

Sjávarklasinn kynnir Trilluna, nýtt smáforrit (app) um íslenskan sjávarútveg, ásamt spurningaleik, sem ætlað er til fræðslu á grunnskólastigi. Markmið Trillunnar er að nemendur kynnist sjávarútveginum og hlutverki hans í íslensku samfélagi á skemmtilegan og líflegan máta. Sjávarútvegurinn spannar mjög vítt svið og ætlunin að kveikja áhuga nemenda á ólíkum hliðum þessa rótgróna en fjölbreytta atvinnuvegs.

Trillan varð til upp úr samstarfi menntastofnana í menntahópi Sjávarklasans. Heiðdís Skarphéðinsdóttir verkefnisstjóri hjá Sjávarklasanum hafði umsjón með þessu verkefni og undirbúningi þess fyrir hönd klasans. Milja Korpela hönnuður klasans hafði með höndum hönnun útlits.

Með heimasíðunni og forritinu verður bæði hægt að lesa sér til gagns og gaman sem og prófa kunnáttu sína á gagnvirkan og skemmtilegan hátt. Um er að ræða nýtt tól sem kennarar, foreldrar og aðrir geta notað til að fræða ungmenni um sjávarútveginn og tengdar atvinnugreinar.

untitledTrillan er liður í því að stuðla að auknum áhuga ungs fólks á íslenskum sjávarútvegi. Ekki hefur verið um auðugan garð að gresja í kennsluefni tengt sjávarútveginum í grunnskólum landsins og margir sem gera sér jafnvel ekki grein fyrir því að sjávarútvegurinn er ein meginuppistaðan í íslensku samfélagi.

Mikil breyting hefur orðið í íslensku skólakerfi á síðustu árum. Kennslan er orðin fjölbreyttari og fer að einhverju leyti fram í gegnum tölvur. Mikil eftirspurn er eftir íslenskum kennsluforritum og fjölgar þeim hratt. Það þykir því mikilvægt að mæta þessari þróun og kveikja áhuga nemenda á sjávarútvegi í gegnum smáforrit fyrir snjallsíma og spjaldtölvur.

Í aðalnámskrá grunnskólanna er þess krafist að nemendur öðlist skilning á sögu landsins og atvinnulífi. Verkefnið tengist því beint inn í aðalnámskrá grunnskólanna. Lífleg uppsetning fræðslu og gagnvirkra leikja er þó hannað með stóran markhóp í huga því ætlunin er að áhrifin séu víðfeðm og forritið innihaldi eitthvað sem allir hafi áhuga á.

Trillan er styrkt af Rannsóknarsjóði síldarútvegsins og Samtökum sjávarútvegssveitarfélaga. Námsefnið er fengið að stórum hluta frá Háskólanum á Akureyri (Bjarni Eiríksson, Hreiðar Þór Valtýsson og Hörður Sævaldsson) og neðansjávarmyndir eru frá Erlendi Bogasyni. Teikningar af fiskum eru eftir Jón Baldur Hlíðberg sem heldur úti vefsíðunni fauna.is. Annað efni er unnið af Íslenska sjávarklasanum.

Hægt er að nálgast forritið í Appstore og Playstore en heimasíða verkefnisins er www.trillan.is.

Nánari upplýsingar veitir Þór Sigfússon, hjá Íslenska sjávarklasanum, í síma 618-6200.