Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sjókvíaeldi

Efst á baugi

Stjórn Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga fundaði í vikunni og fjallaði um skýrslu Ríkisendurskoðunar um sjókvíaeldi. Í skýrslunni koma fram margar ábendingar sem sveitarfélög og hafnasjóðir hafa bent á. Telur stjórnin mikilvægt að sveitarfélögin, hafnasjóðir og samtök þeirra komu að þeirra vinnu sem framundan er á grundvelli skýrslunnar. Þess má geta að stjórn Hafnasambands Íslands samþykkti samhljóða bókun á stjórnarfundi í vikunni.

Bókun stjórnar:

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sjókvíaeldi felur í sér margar ábendingar sem áður hafa komið fram bæði af hendi sjávarútvegssveitarfélaga sem og fyrirtækja í fiskeldi. Sveitarfélögin hafa haft litla aðkomu að leyfisveitingaferli frá upphafi. Þá hefur eftirlit með atvinnugreininni verið gagnrýnt þar sem skort hefur á samstarf við sveitarfélögin um slíkt ásamt því að tekjustofn af greininni hefur ekki verið tryggður til samfélaganna þar sem eldið er stundað. Einnig hefur verið óskýrt hvernig á að rukka hafnagjöld af þessari atvinnugrein. Skýrslan endurspeglar og dregur fram hve litla aðkomu sveitarfélögin hafa haft að umgjörð atvinnugreinarinnar, ákvarðanatöku og stefnumótun er varðar hana. Í þeirri vinnu sem framundan er á grundvelli skýrslunnar er nauðsynlegt að sveitarfélögin og hafnasjóðir komi að þeirri vinnu ásamt samtökum þeirra.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sjókvíaeldi – lagaframkvæmd, stjórnsýsla og eftirlit

Sjávarútvegsfundur 2022

Sjávarútvegsfundur Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga verður haldinn í fjarfundi þriðjudaginn 22. febrúar kl. 13:00 – 15:00

Sjávarútvegsfundur er ætlaður sem almennur kynningar- og fræðslufundur fyrir starfsmenn, stjórnendur og bæjarfulltrúa aðildarsveitarfélaga um tiltekin málefni sem stjórnin ákveður hverju sinni.

Nauðsynlegt er að skrá sig á fundinn til að fá sendan fundahlekk. Hér má nálgast dagskrá fundar ásamt hlekk á skráningu.

Nánari upplýsingar veitir Valgerður F. Ágústsdóttir starfsmaður samtakanna.

Óskað eftir umsögn um reglugerð um gerð strandsvæðisskipulags

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið óskar eftir umsögnum um drög að reglugerð um gerð strandsvæðisskipulags.

Um er að ræða nýja reglugerð sem byggir á lögum um skipulag haf- og strandsvæða. Lögin fela í sér það nýmæli að í fyrsta skipti verði hér á landi unnið að gerð skipulags fyrir strendur Íslands.

Samkvæmt lögunum er strandsvæðisskipulag unnið fyrir tiltekið afmarkað strandsvæði. Þar koma fram markmið og ákvarðanir um framtíðarnýtingu og vernd og þær framkvæmdir sem geta fallið að nýtingu svæðisins. Í reglugerðardrögunum er kveðið nánar á um efni og kynningu lýsingar vegna gerðar strandsvæðisskipulags, efni og framsetningu þess og samráð og kynningu við gerð og afgreiðslu skipulagsins. Átta manna svæðisráð, sem samanstendur af fulltrúum ríkis og sveitarfélaga, bera ábyrgð á gerð strandsvæðisskipulags, og er í drögunum kveðið nánar á um starf svæðisráða.

Óskað er eftir því að athugasemdir við reglugerðardrögin berist í Samráðsgátt Stjórnarráðsins eigi síðar en 4. október nk.Drög að reglugerð um gerð strandsvæðisskipulags í Samráðsgátt

Verstöðin Ísland

IMG_1632Í dag gaf Íslenski sjávarklasinn út skýrsluna Verstöðin Ísland: hagræðing og landfræðileg samþjöppun í íslenskum sjávarútvegi 1993-2003 en Samtök sjávarútvegssveitarfélaga styrktu útgáfu skýrslunnar fyrr á árinu.

Margt fróðlegt kemur fram í skýrslunni sem mun nýtast samtökunum í sinni hagsmunabaráttu á næstu árum.

Við hvetjum aðildarsveitarfélög til að kynna sér skýrsluna en hana má nálgast hér.

Veiðigjöld 2013/2014

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur mælt fyrir um birtingu á álögðum veiðigjöldum sundurliðuð eftir sjávarútvegsfyrirtækjum vegna 2013/2014.

Sundurliðuð veiðigjöld 2012/2013 og 2013/2014 eftir greiðendum

Undir  flipunum í skjalinu eru sundurliðuð álögð almenn og sérstök veiðigjöld ásamt lækkun á sérstöku veiðigjaldi  fyrir bæði fiskveiðiárin.

Skjalið er birt í almennu upplýsingaskyni – ef frávik reynast vera í þessum upplýsingum frá álagningu á einstök fyrirtæki þá gildir álagningin.

Athugið sérstaklega: Upplýsingarnar um álagningu 2012/2013 og 2013/2014 eru ekki sambærilegar, því að álagningu er ekki lokið á yfirstandandi fiskveiðiári. Á fiskveiðiárinu 2013/2014 er eftir að leggja á vegna afla í ókvótabundnum tegundum, þ.m.t. vegna makrílafla  frá  og með ágúst 2013 til loka júlí 2014.

Tekið af vef Fiskistofu

Stjórn sjávarútvegssveitarfélaga með skýra kröfu

2014-05-15 17.51.44

Á fundi stjórnar Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga sem haldinn var 12. maí sl. var eftirfarandi bókun samþykkt samhljóða:

Stjórn sjávarútvegssveitarfélaga tekur undir áhyggjur sveitarstjórna og íbúa þeirra sjávarbyggða sem horfa fram á flutninga á atvinnutækifærum og brottflutning fólks frá Djúpavogi, Húsavík og Þingeyri. Ekkert sveitarfélag kemst í gegnum högg sem þetta án stuðnings frá hinu opinbera.

Samtök sjávarútvegssveitarfélaga gera þá skýru kröfu að fleiri leiða verði leitað en að gera sjávarútveginn ábyrgan fyrir byggðaþróun í landinu. Auknar varnir fyrir sjávarbyggðirnar og íbúa þeirra verður að byggja inn í lögin um stjórn fiskveiða, og færa sveitarstjórnum sjávarútvegssveitarfélaganna raunhæf tæki til að takast á við þær breytingar sem fylgja aukinni hagræðingarkröfu í sjávarútvegi og breytingu á löggjöf.

Samtökin óttast þær blikur sem nú eru á lofti vegna hagræðingaraðgerða Vísis, og minna á að sífelld samþjöppun í sjávarútvegi er afleiðing krafna um hagkvæmari rekstur og birtingarmynd þeirra aðstæðna sem greinin býr við. Því má ætla að þessar breytingar séu einungis hluti af þeim breytingum sem áfram má vænta.

Samtök sjávarútvegssveitarfélaga gera kröfu til þess að ríkisvaldið kannist við ábyrgð og aðstoði viðkomandi sjávarbyggðir í bráð, en leiti einnig raunhæfra leiða til að sjávarútvegssveitarfélögin geti betur tekist á við þær breytingar sem eru, og verða áfram í sjávarbyggðunum. Það er grundvallaratriði í byggðaþróun á Íslandi.

Samtökin lýsa sig reiðubúin að koma að stefnumótun og vinnu í þessum efnum.