Samtök sjávarútvegssveitarfélaga lýsa yfir eindreginni andstöðu við tillögu ríkisstjórnarinnar um hækkun veiðigjalda enda getur ríkisstjórnin ekki sýnt fram á áhrif hækkunar á sveitarfélög.
Umrædd breyting getur haft í för með sér alvarlegar afleiðingar fyrir sjávarútvegssveitarfélög sem reiða sig á greinina til atvinnu og tekjuöflunar. Þrátt fyrir þessa óvissu fyrir sveitarfélög hafa engin gögn verið lögð fram um áhrif tillögunnar á landsbyggðina né einstök sveitarfélög sem er með öllu óásættanlegt. Er þetta einnig í andstöðu við 129. gr. sveitarstjórnarlaga sem kveður á um að fara eigi fram sérstakt mat á áhrifum lagabreytinga á fjárhag sveitarfélaga.
Við teljum þessa tillögu bera vott um skort á skilningi á mikilvægi sjávarútvegs fyrir byggðafestu og stöðugleika í íslensku efnahagslífi. Hækkun veiðigjalda að þessu marki getur ekki aðeins haft mikil áhrif á rekstrarforsendur fyrirtækja og samspil veiða og vinnslu, heldur einnig á fjölda samfélaga vítt og breitt um landið.
Samtökin skora á ríkisstjórnina að staldra við og hefja gagnsætt samtal við hagaðila um sanngjarna og rökstudda nálgun á grundvelli greininga á áhrifum á ekki eingöngu fyrirtæki heldur einnig sjávarútvegssveitarfélög. Í framhaldinu verði lögð fram endurskoðuð tillaga byggð á samtölum og greiningum.
Samtökin gera líka athugasemdir við þann stutta umsagnarfrest sem veittur var, þ.e. 10 dagar, sérstaklega í ljósi þess að engin greiningargögn eru til staðar. Ómögulegt er fyrir sveitarfélög að greina áhrif og halda sveitarstjórnarfundi innan þess tímaramma til að senda inn greinargóða umsögn. Því gera samtökin skýlausa kröfu að umsagnarfrestur verði lengdur til að gefa öllum sveitarfélögum tækifæri til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri.