Skortur á skilningi á mikilvægi sjávarútvegs fyrir byggðafestu og stöðugleika

Samtök sjávarútvegssveitarfélaga lýsa yfir eindreginni andstöðu við tillögu ríkisstjórnarinnar um hækkun veiðigjalda enda getur ríkisstjórnin ekki sýnt fram á áhrif hækkunar á sveitarfélög.

Umrædd breyting getur haft í för með sér alvarlegar afleiðingar fyrir sjávarútvegssveitarfélög sem reiða sig á greinina til atvinnu og tekjuöflunar. Þrátt fyrir þessa óvissu fyrir sveitarfélög hafa engin gögn verið lögð fram um áhrif tillögunnar á landsbyggðina né einstök sveitarfélög sem er með öllu óásættanlegt. Er þetta einnig í andstöðu við 129. gr. sveitarstjórnarlaga sem kveður á um að fara eigi fram sérstakt mat á áhrifum lagabreytinga á fjárhag sveitarfélaga.

Við teljum þessa tillögu bera vott um skort á skilningi á mikilvægi sjávarútvegs fyrir byggðafestu og stöðugleika í íslensku efnahagslífi. Hækkun veiðigjalda að þessu marki getur ekki aðeins haft mikil áhrif á rekstrarforsendur fyrirtækja og samspil veiða og vinnslu, heldur einnig á fjölda samfélaga vítt og breitt um landið.

Samtökin skora á ríkisstjórnina að staldra við og hefja gagnsætt samtal við hagaðila um sanngjarna og rökstudda nálgun á grundvelli greininga á áhrifum á ekki eingöngu fyrirtæki heldur einnig sjávarútvegssveitarfélög. Í framhaldinu verði lögð fram endurskoðuð tillaga byggð á samtölum og greiningum.

Samtökin gera líka athugasemdir við þann stutta umsagnarfrest sem veittur var, þ.e. 10 dagar, sérstaklega í ljósi þess að engin greiningargögn eru til staðar. Ómögulegt er fyrir sveitarfélög að greina áhrif og halda sveitarstjórnarfundi innan þess tímaramma til að senda inn greinargóða umsögn. Því gera samtökin skýlausa kröfu að umsagnarfrestur verði lengdur til að gefa öllum sveitarfélögum tækifæri til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri.

Þungar áhyggjur af áhrifum mögulegs loðnubrests

Eftirfarandi bókun var samþykkt á stjórnarfundi Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga 22. október 2024.

Stjórn Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga lýsir yfir þungum áhyggjum af áhrifum mögulegs loðnubrests á íslenskt efnahagslíf. Ekki síst gætir áhrifanna hjá íbúum og fyrirtækjum í sveitarfélögum þar sem uppsjávarvinnsla er ein af meginstoðum atvinnulífsins. Ef ekki verður loðnuvertíð á næsta ári verður það annað árið í röð sem tekjutap af þeim völdum dynur yfir þessi sveitarfélög og samfélagið allt hér á landi. Jafnframt mun það hafa mjög neikvæð áhrif á hagvöxt á næsta ári sem er grafalvarlegt. 

 Haustmælingar á loðnu gáfu þó vísbendingar um að hægt verði að gefa út upphafskvóta og því leggja Samtök sjávarútvegssveitarfélaga mikla áherslu á að Hafrannsóknarstofnun verði fjárhagslega undir það búin að fara í öflugar bergmálsmælingar í byrjun næsta árs til að hægt sé að ganga úr skugga um hvort ekki sé hægt að heimila þessar þjóðhagslega mikilvægu veiðar. Það er skýlaus krafa sjávarbyggða á Íslandi að ríkisvaldið sjái til þess að jafn mikilvæg stofnun og Hafrannsóknarstofnun sé fullfjármögnuð og gert kleift að halda úti öflugum rannsóknum á fiskistofnum þjóðarinnar til að hægt sé að tryggja sjálfbærar veiðar sem skipta sköpum fyrir íslenskt efnahagslíf.

Nánari upplýsingar veitir Jón Björn Hákonarson formaður Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga, jon.bjorn.hakonarson@fjardabyggd.is og í síma: 899-8255

Ályktun vegna loðnubrests

Stjórn Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga samþykkti á fundi sínum þann 22. mars sl eftirfarandi ályktun.

Stjórn Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga lýsir yfir þungum áhyggjum vegna loðnubrests sem Hafrannsóknarstofnun hefur tilkynnt um í kjölfar árangurslausrar loðnuleitar.

Loðnubresti fylgir þungt efnahagslegt högg fyrir samfélögin sem loðna er unnin og ekki síður fyrir landið allt. Ljóst er að íbúar, sveitarfélög og ríkissjóður munu verða af miklum tekjum vegna þessa. Vilja samtök Sjávarútvegssveitarfélaga minna á að nauðsynlegt er að horfa til sveitarfélaganna vegna þessa við áætlunargerð og aðgerðir af hálfu ríkisvaldsins.

Þá leggja samtökin þunga áherslu á að loðnurannsóknir og loðnuleit Hafrannsóknarstofnunar verði fullfjármagnaðar svo hún geti sinnt rannsóknum og leit á þessum mikilvæga fiskistofni sem og öðrum enda er sjávarútvegur grunnstoð í íslensku samfélagi.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sjókvíaeldi

Stjórn Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga fundaði í vikunni og fjallaði um skýrslu Ríkisendurskoðunar um sjókvíaeldi. Í skýrslunni koma fram margar ábendingar sem sveitarfélög og hafnasjóðir hafa bent á. Telur stjórnin mikilvægt að sveitarfélögin, hafnasjóðir og samtök þeirra komu að þeirra vinnu sem framundan er á grundvelli skýrslunnar. Þess má geta að stjórn Hafnasambands Íslands samþykkti samhljóða bókun á stjórnarfundi í vikunni.

Bókun stjórnar:

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sjókvíaeldi felur í sér margar ábendingar sem áður hafa komið fram bæði af hendi sjávarútvegssveitarfélaga sem og fyrirtækja í fiskeldi. Sveitarfélögin hafa haft litla aðkomu að leyfisveitingaferli frá upphafi. Þá hefur eftirlit með atvinnugreininni verið gagnrýnt þar sem skort hefur á samstarf við sveitarfélögin um slíkt ásamt því að tekjustofn af greininni hefur ekki verið tryggður til samfélaganna þar sem eldið er stundað. Einnig hefur verið óskýrt hvernig á að rukka hafnagjöld af þessari atvinnugrein. Skýrslan endurspeglar og dregur fram hve litla aðkomu sveitarfélögin hafa haft að umgjörð atvinnugreinarinnar, ákvarðanatöku og stefnumótun er varðar hana. Í þeirri vinnu sem framundan er á grundvelli skýrslunnar er nauðsynlegt að sveitarfélögin og hafnasjóðir komi að þeirri vinnu ásamt samtökum þeirra.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sjókvíaeldi – lagaframkvæmd, stjórnsýsla og eftirlit

Greining á gjaldtöku af sjávarútvegi og fiskeldi

Á Sjávarútvegsfundi Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga 22. febrúar sl. var kynnt greining á gjaldtöku af sjávarútvegi og fiskeldi sem KPMG vann að beiðni samtakanna. Tilefni þess að stjórn samtakanna ákvað á gera greiningu á gjaldtöku á sjávarútvegi og fiskeldi og hvernig þær tekjur skiptast á milli ríkis og sveitarfélaga er m.a. vegna aukinnar gjaldtöku af hálfu ríkisins á þessum tveimur atvinnugreinum og aukinna krafna á sveitarfélögin um aukna þjónustu og bætta innviði. Í greiningunni kemur fram að hlutdeild sveitarfélaga í heildargjaldtöku í sjávarútvegi og fiskeldi hefur verið á bilinu 26-29% á árunum 2016 – 2020 og er það fyrst og fremst útsvarsgreiðslur launþega. Meðalútsvar á árunum 2017 til 2020 nam 14.44%.

Með greiningunni liggur nú fyrir heildstætt yfirlit yfir tekjur af þessum tveimur atvinnugreinum og hvernig þær skiptast á milli ríkis og sveitarfélaga. Greining á gjaldtöku af sjávarútvegi og fiskeldi er því eitt af þeim mikilvægu gögnum sem samtökin hafa látið vinna og mun vonandi nýtast aðildarsveitarfélögum samtakanna í samtalinu sem framundan er um tekjustofna sveitarfélaga.

Hér fyrir neðan má nálgast skýrsluna í heild sinni

Greining á gjaldtöku af sjávarútvegi og fiskeldi

Sjávarútvegsfundur 2022

Sjávarútvegsfundur Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga verður haldinn í fjarfundi þriðjudaginn 22. febrúar kl. 13:00 – 15:00

Sjávarútvegsfundur er ætlaður sem almennur kynningar- og fræðslufundur fyrir starfsmenn, stjórnendur og bæjarfulltrúa aðildarsveitarfélaga um tiltekin málefni sem stjórnin ákveður hverju sinni.

Nauðsynlegt er að skrá sig á fundinn til að fá sendan fundahlekk. Hér má nálgast dagskrá fundar ásamt hlekk á skráningu.

Nánari upplýsingar veitir Valgerður F. Ágústsdóttir starfsmaður samtakanna.

Áhrif loðnubrests á sveitarfélög

Stjórn Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga samþykkti vorið 2019 að láta vinna samantekt á heildaráhrifum loðnubrests í þeim sjávarútvegssveitarfélögum sem lloðnubrestur hafði mest áhrif á. Ákveðið var að óska eftir upplýsingum frá eftirtöldum sveitarfélögum; Fjarðabyggð, Langanesbyggð, Sveitarfélaginu Hornafirði, Vestmannaeyjabæ og Vopnafjarðarhreppi.

Markmið greiningarinnar var að meta bein áhrif loðnubrests á fjárhag og rekstur sveitarfélaganna.

Samantektin var unnin af RR ráðgjöf og birtist hér í formi minnisblaðs. Samantektin verður meðal umfjöllunarefna á Sjávarútvegsfundi samtakanna sem haldinn verður 2. október.

Minnisblað um áhrif loðnubrests

Áhrif minnkandi línuívilnunar á sjávarbyggðir

Stjórn Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga samþykkti vorið 2019 að láta gera úttekt eða greiningu á áhrifum minnkandi nýtingar línuívilnunar á atvinnu- og íbúaþróun í þeim sveitarfélögum þar sem línuívilnun hefur verið nýtt hvað mest. 

Markmið úttektar var að draga fram staðreyndir um gildi línuívilnunar fyrir þessi samfélög á undanförnum árum og möguleg áhrif enn frekari skerðinga á heimildum vegna hennar.

Úttektin var unnin af RR ráðgjöf og var að mestu unnin á grundvelli gagna frá Fiskistofu.  Skýrsla þessi verður meðal umfjöllunarefna á Sjávarútvegsfundi samtakanna sem haldinn verður 2. október.

Áhrif minnkandi línuívilnunar á sjávarbyggðir