Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sjókvíaeldi

Stjórn Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga fundaði í vikunni og fjallaði um skýrslu Ríkisendurskoðunar um sjókvíaeldi. Í skýrslunni koma fram margar ábendingar sem sveitarfélög og hafnasjóðir hafa bent á. Telur stjórnin mikilvægt að sveitarfélögin, hafnasjóðir og samtök þeirra komu að þeirra vinnu sem framundan er á grundvelli skýrslunnar. Þess má geta að stjórn Hafnasambands Íslands samþykkti samhljóða bókun á stjórnarfundi í vikunni.

Bókun stjórnar:

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sjókvíaeldi felur í sér margar ábendingar sem áður hafa komið fram bæði af hendi sjávarútvegssveitarfélaga sem og fyrirtækja í fiskeldi. Sveitarfélögin hafa haft litla aðkomu að leyfisveitingaferli frá upphafi. Þá hefur eftirlit með atvinnugreininni verið gagnrýnt þar sem skort hefur á samstarf við sveitarfélögin um slíkt ásamt því að tekjustofn af greininni hefur ekki verið tryggður til samfélaganna þar sem eldið er stundað. Einnig hefur verið óskýrt hvernig á að rukka hafnagjöld af þessari atvinnugrein. Skýrslan endurspeglar og dregur fram hve litla aðkomu sveitarfélögin hafa haft að umgjörð atvinnugreinarinnar, ákvarðanatöku og stefnumótun er varðar hana. Í þeirri vinnu sem framundan er á grundvelli skýrslunnar er nauðsynlegt að sveitarfélögin og hafnasjóðir komi að þeirri vinnu ásamt samtökum þeirra.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sjókvíaeldi – lagaframkvæmd, stjórnsýsla og eftirlit