Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sjókvíaeldi

Efst á baugi

Stjórn Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga fundaði í vikunni og fjallaði um skýrslu Ríkisendurskoðunar um sjókvíaeldi. Í skýrslunni koma fram margar ábendingar sem sveitarfélög og hafnasjóðir hafa bent á. Telur stjórnin mikilvægt að sveitarfélögin, hafnasjóðir og samtök þeirra komu að þeirra vinnu sem framundan er á grundvelli skýrslunnar. Þess má geta að stjórn Hafnasambands Íslands samþykkti samhljóða bókun á stjórnarfundi í vikunni.

Bókun stjórnar:

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sjókvíaeldi felur í sér margar ábendingar sem áður hafa komið fram bæði af hendi sjávarútvegssveitarfélaga sem og fyrirtækja í fiskeldi. Sveitarfélögin hafa haft litla aðkomu að leyfisveitingaferli frá upphafi. Þá hefur eftirlit með atvinnugreininni verið gagnrýnt þar sem skort hefur á samstarf við sveitarfélögin um slíkt ásamt því að tekjustofn af greininni hefur ekki verið tryggður til samfélaganna þar sem eldið er stundað. Einnig hefur verið óskýrt hvernig á að rukka hafnagjöld af þessari atvinnugrein. Skýrslan endurspeglar og dregur fram hve litla aðkomu sveitarfélögin hafa haft að umgjörð atvinnugreinarinnar, ákvarðanatöku og stefnumótun er varðar hana. Í þeirri vinnu sem framundan er á grundvelli skýrslunnar er nauðsynlegt að sveitarfélögin og hafnasjóðir komi að þeirri vinnu ásamt samtökum þeirra.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sjókvíaeldi – lagaframkvæmd, stjórnsýsla og eftirlit

Greining á gjaldtöku af sjávarútvegi og fiskeldi

Á Sjávarútvegsfundi Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga 22. febrúar sl. var kynnt greining á gjaldtöku af sjávarútvegi og fiskeldi sem KPMG vann að beiðni samtakanna. Tilefni þess að stjórn samtakanna ákvað á gera greiningu á gjaldtöku á sjávarútvegi og fiskeldi og hvernig þær tekjur skiptast á milli ríkis og sveitarfélaga er m.a. vegna aukinnar gjaldtöku af hálfu ríkisins á þessum tveimur atvinnugreinum og aukinna krafna á sveitarfélögin um aukna þjónustu og bætta innviði. Í greiningunni kemur fram að hlutdeild sveitarfélaga í heildargjaldtöku í sjávarútvegi og fiskeldi hefur verið á bilinu 26-29% á árunum 2016 – 2020 og er það fyrst og fremst útsvarsgreiðslur launþega. Meðalútsvar á árunum 2017 til 2020 nam 14.44%.

Með greiningunni liggur nú fyrir heildstætt yfirlit yfir tekjur af þessum tveimur atvinnugreinum og hvernig þær skiptast á milli ríkis og sveitarfélaga. Greining á gjaldtöku af sjávarútvegi og fiskeldi er því eitt af þeim mikilvægu gögnum sem samtökin hafa látið vinna og mun vonandi nýtast aðildarsveitarfélögum samtakanna í samtalinu sem framundan er um tekjustofna sveitarfélaga.

Hér fyrir neðan má nálgast skýrsluna í heild sinni

Greining á gjaldtöku af sjávarútvegi og fiskeldi

Sjávarútvegsfundur 2022

Sjávarútvegsfundur Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga verður haldinn í fjarfundi þriðjudaginn 22. febrúar kl. 13:00 – 15:00

Sjávarútvegsfundur er ætlaður sem almennur kynningar- og fræðslufundur fyrir starfsmenn, stjórnendur og bæjarfulltrúa aðildarsveitarfélaga um tiltekin málefni sem stjórnin ákveður hverju sinni.

Nauðsynlegt er að skrá sig á fundinn til að fá sendan fundahlekk. Hér má nálgast dagskrá fundar ásamt hlekk á skráningu.

Nánari upplýsingar veitir Valgerður F. Ágústsdóttir starfsmaður samtakanna.