Upptökur af málþingi um áhættumat erfðablöndunnar í fiskeldi

Fullt var út úr dyrum á málþing um áhættumat vegna mögulegrar erfðablöndunar milli eldislaxa og náttúrulegra laxastofna á Íslandi sem Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, stóð fyrir í Sjávarútvegshúsinu í morgun. Beint streymi var frá málþinginu og má sjá upptöku af fundinum á þessari slóð.

Halda áfram að lesa

Ný reglugerð um umhverfissjóð sjókvíaeildis

Hlutverk umhverfissjóðs sjókvíaeldis er að greiða kostnað við rannsóknir vegna burðarþolsmat, vöktunar og annarra verkefna er stjórn sjóðsins ákveður, að því er segir í reglugerð sem gefin hefur verið út um sjóðinn.

Einnig veitir sjóðurinn styrki samkvæmt ákvörðun stjórnar hverju sinni, sem ætlaðir eru stofnunum, fiskeldisfyrirtækjum og öðrum einstaklingum og lögaðilum. Þá bætir sjóðurinn rekstrarleyfishöfum tjón sem ekki verður rakið til ákveðinnar eldisstöðvar.

Fyrir sjóðnum fer fjögurra manna stjórn sem skipuð er til fjögurra ára í senn af sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Landssamband fiskeldisstöðva og Landssamband veiðifélaga skipa hvor sinn stjórnarmanninn. Hina tvo skipar ráðherra og er annar þeirra jafnframt formaður sjóðsins.

Sjóðurinn er fjármagnaður af gjaldi sem rekstrarleyfishafar greiða árlega af hverju tonni af eldisfiski sem heimilt er að framleiða og nemur 12 SDR. Gjaldið rennur óskert í sjóðinn.  Sjóðurinn hefur farið vaxandi samfara auknu fiskeldi og námu úthlutanir 228 milljónum á árinu 2018 samanborið við 87 milljónir króna á árinu 2017.

Í frétt frá atvinnuvegaráðuneyti kemur fram, að með setningu reglugerðarinnar styrkist stjórnsýsla sjóðsins og gagnsæi ákvarðana við úthlutanir úr honum muni aukast.  Umhverfissjóður sjókvíaeldis starfar samkvæmt lögum nr. 71/2008 um fiskeldi. og er markmið hans að lágmarka umhverfisáhrif sjókvíaeldis.

Undanþágur frá starfsleyfi veittar með skilyrðum

Umhverfis- og auðlindaráðherra hefur veitt Arctic Sea Farm hf. og Fjarðalaxi hf. undanþágur með skilyrðum vegna sjókvíaeldis á laxi í Patreksfirði og Tálknafirði. Tímabundið starfsleyfi heimilar Arctic Sea Farm framleiðslu á 600 tonnum á ári og Fjarðalaxi 3.400 tonnum á ári. Starfsleyfin falla úr gildi í síðasta lagi þann 5. september 2019.

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála felldi, sem kunnugt er, starfsleyfi þessara fyrirtækja úr gildi í október sl. Umræddar undanþágur voru veittar á grundvelli laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og reglurgerðar nr. 550/2018 um losun frá atvinnurekstri og mengunarvarnaeftirlit.

Kemur fram í frétt ráðuneytisins um málið, að tímabundnu starfsleyfin heimili umfangsminni starfsemi en upphafleg leyfi grðu og fyrirtækin óskuðu eftir.

Undanþága er veitt með þeim skilyrðum að fyrirtækin vinni með virkum hætti að því að bæta úr annmörkum á umhverfismati framkvæmda. Einnig er gert ráð fyrir að starfseminni sé haldið í lágmarki til að lágmarka umhverfisáhrif og mengun af hennar völdum á undanþágutímabilinu.

Við afgreiðslu málsins var aflað umsagna Skipulagsstofnunar, Umhverfisstofnunar og Matvælastofnunar, sem mæltu með því að fyrirtækjunum yrði veitt tímabundin undanþága frá starfsleyfi.

Ályktun aðalfundar

Samtök sjávarútvegssveitarfélaga fagna því að samstaða náðist í gær á Alþingi um lagasetningu til að létta tímabundið á óvissu um fiskeldisstarfsemi á  landinu öllu sunnanverðum Vestfjörðum, en lýsa jafnframt yfir þungum áhyggjum af þeirri stöðu sem upp er komin í kjölfar niðurstöðu úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Halda áfram að lesa

Sjávarútvegsráðherra með opna fundi um allt land um veiðigjald og stöðu sjávarútvegs

Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra mun á næstu tveimur vikum halda tíu opna fundi hringinn í kringum til að ræða  nýtt frumvarp til laga um veiðigjald og stöðu sjávarútvegsins almennt.

Fundirnir eru öllum opnir.

  • Ísafjarðarbær  –  Hótel Ísafjörður, miðvikudag 10. október kl. 19:30
  • Vesturbyggð  –  Félagsheimilið, fimmtudag 11. október kl. 12:00
  • Hellissandur  –  Félagsheimilið Röstin, fimmtudag 11. október kl. 19:30
  • Reykjavík  –  atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti Skúlagötu 4, þriðjudag 16. október kl. 19:30
  • Vestmannaeyjar  –  Akóges, miðvikudag 17. október kl. 11:30
  • Akureyri  –  KEA Hótel, sunnudag 21. október kl. 19:30
  • Þórshöfn  –  Hafliðabúð, mánudag 22. október kl. 12:00
  • Eskifjörður  –  Valhöll,  mánudag 22. október kl. 19:30
  • Höfn – Hótel Höfn,  þriðjudag 23. október kl. 12:00
  • Grindavík – Salthúsið, þriðjudag 23. október kl. 20:00

Aðalfundur 2018

Aðalfundur Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga verður haldinn miðvikudaginn 10. október nk. kl. 12:15 á Hótel Hilton Reykjavík Nordica Suðurlandsbraut 2.

Dagskrá:

  1. Skýrsla stjórnar
  2. Ársreikningur
  3. Starfs- og fjárhagsáætlun samtakanna ásamt ákvörðun um árgjöld og þóknun stjórnar
  4. Lagabreytingar
  5. Kosning formanns stjórnar, annarra stjórnarmenn og varastjórnar til tveggja ára
  6. Kosning tveggja skoðunarmanna og tveggja til vara til tveggja ára
  7. Önnur mál

Dagskráin er kynnt með fyrirvara um breytingar.

Vakin er athygli á því að einn fulltrúi þarf í það minnsta að mæta frá hverju aðildarsveitarfélagi. Einnig eru aðildarsveitarfélög vinsamlegast beðin um að skrá alla fulltrúa ef fleiri en einn mæta fyrir hönd viðkomandi sveitarfélags.

Þeir aðilar sem vilja gefa kost á sér til stjórnarsetu í samtökunum eru vinsamlegast beðnir um að hafa samband við Gauta Jóhannesson, formann samtakanna, gauti@djupavogur.is.

 

Endurnýjaður kynningarvefur stjórnvalda um sjávarútveg

Ábyrg og sjálfbær nýting auðlinda hafsins er hornsteinn stefnu íslenskra stjórnvalda í  sjávarútvegsmálum. Vefurinn fisheries.is er upplýsingavefur stjórnvalda á ensku um íslenskan sjávarútveg og hefur hann nú verið endurnýjaður.

Markmiðið með vefnum er að sýna með rökum að Íslendingar verðskuldi traust í sjávarútvegsmálum og eru aflareglur fyrir alla helstu nytjastofna og yfirlýsing stjórnvalda um ábyrgar fiskveiðar grunnurinn að því. Vefnum er skipt upp í sex efnisflokka og fjalla þeir um i) stjórnun fiskveiða, ii) helstu fisktegundir, iii) alþjóðlegt samstarf, iv) fiskvinnslu, v) fiskeldi og vi) söguágrip.

Umdeilt frumvarp um haf- og strandsvæðaskipulag

Svæðisráðum verður fengið það hlutverk, skv. 5. grein frumvarpsins, að afgreiða haf- og strandsvæðaskipulag á sínu svæði hvert. Um allt að sjömanna einskiptisráð er að ræða, sem verða leyst upp að hverju svæðisskipulagi samþykktu og geta fulltrúar sveitarfélaga mest orðið tveir, ef fleiri sveitarfélög en þrjú eru á viðkomandi skipulagssvæði.

Aðrir sem eiga sæti í svæðisráði eru fulltrúi tilnefndur af Sambandi íslenskra sveitarfélaga og fjórir ráðuneytisfulltrúar, sem tilnefndir eru af jafnmörgum ráðuneytum eða ráðuneyti orkumála og ferðamála, sjávarútvegsmála, samgöngumála og umhverfis- og auðlindamála og skipar síðastnefnda ráðuneytið jafnframt formann hvers ráðs.

Í eldri umsögn lagði sambandið breytingar til sem styrkt hefðu stöðu heimafólks í svæðisráðum. Er, eins og áður segir, vonbrigðum lýst með að frumvarpið hafi verið endurflutt í óbreyttri mynd hvað fyrirhuguð svæðisráð snertir.

Sambandið leggur jafnframt áherslu á að í nefndaráliti umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis verði nálægðarreglan höfð í heiðri og að þess verði gætt að framkvæmd laganna verði í sem bestu samræmi við gildandi skipulagsáætlanir á hverjum stað. Er í þessu sambandi minnt á að í  skipulagslögum hafi þau sjónarmið verið lögð til grundvallar að engin skörun eigi sér stað á milli skipulagsstiga.

Sambandið vonast til, að löggjafinn endurskoði frumvarpið m.t.t. framkominna athugasemda, enda verulegir hagsmunir í húfi, ekki hvað síst hjá sjávarútvegssveitarfélögum sem eiga mörg hver allt sitt undir sjálfbærri nýtingu strandsvæða ásamt innfjörðum og flóum.

Umsögnin sambandsins er samin í góðu samráði við stjórn Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga. Í umsögn sinni tekur stjórn samtakanna að öllu leyti undir umsögn sambandsins nema því, að ekki er gengið nægilega langt hvað skipulagsskyldu sveitarfélaga snertir á strandsvæðum. Leggja samtökin þunga áherslu á, að forræði sveitarfélaga í skipulagi strandsvæða nái allt að einni sjómílu út frá grunnlínu landhelginnar.

Halda áfram að lesa