Undanþágur frá starfsleyfi veittar með skilyrðum

Umhverfis- og auðlindaráðherra hefur veitt Arctic Sea Farm hf. og Fjarðalaxi hf. undanþágur með skilyrðum vegna sjókvíaeldis á laxi í Patreksfirði og Tálknafirði. Tímabundið starfsleyfi heimilar Arctic Sea Farm framleiðslu á 600 tonnum á ári og Fjarðalaxi 3.400 tonnum á ári. Starfsleyfin falla úr gildi í síðasta lagi þann 5. september 2019.

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála felldi, sem kunnugt er, starfsleyfi þessara fyrirtækja úr gildi í október sl. Umræddar undanþágur voru veittar á grundvelli laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og reglurgerðar nr. 550/2018 um losun frá atvinnurekstri og mengunarvarnaeftirlit.

Kemur fram í frétt ráðuneytisins um málið, að tímabundnu starfsleyfin heimili umfangsminni starfsemi en upphafleg leyfi grðu og fyrirtækin óskuðu eftir.

Undanþága er veitt með þeim skilyrðum að fyrirtækin vinni með virkum hætti að því að bæta úr annmörkum á umhverfismati framkvæmda. Einnig er gert ráð fyrir að starfseminni sé haldið í lágmarki til að lágmarka umhverfisáhrif og mengun af hennar völdum á undanþágutímabilinu.

Við afgreiðslu málsins var aflað umsagna Skipulagsstofnunar, Umhverfisstofnunar og Matvælastofnunar, sem mæltu með því að fyrirtækjunum yrði veitt tímabundin undanþága frá starfsleyfi.