Upptökur af málþingi um áhættumat erfðablöndunnar í fiskeldi

Fullt var út úr dyrum á málþing um áhættumat vegna mögulegrar erfðablöndunar milli eldislaxa og náttúrulegra laxastofna á Íslandi sem Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, stóð fyrir í Sjávarútvegshúsinu í morgun. Beint streymi var frá málþinginu og má sjá upptöku af fundinum á þessari slóð.

Hafrannsóknastofnun gaf áhættumatið fyrst út í júlí 2017. Ráðherra lagði nýlega fram á Alþingi frumvarp um breytingar á ýmsum lögum sem tengjast fiskeldi og þar er lagt til að áhættumatið verði lögfest og jafnframt að það verði tekið til endurskoðunar í sumar. Á málþinginu var farið yfir áhættumatið og þá vinnu sem liggur að baki því auk þess sem rætt var um næstu skref í þróun þess.

Framsögumenn á málþinginu voru Ragnar Jóhannsson, sviðsstjóri hjá Hafrannsóknastofnun og einn höfunda áhættumatsins, Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi og Jón Helgi Björnsson, formaður Landssambands veiðifélaga. Málþingið hófst á ávarpaði ráðherra og lauk að framsögum loknum með pallborðsumræðum. Við pallborðið sátu Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, alþingismaður og 1. varaformaður atvinnuveganefndar Alþingis, Daníel Jakobsson, bæjarfulltrúi í Ísafjarðarbæ, Jón Kaldal, talsmaður Icelandic Wildlife Fund, Lilja Rafney Magnúsdóttir, alþingismaður og formaður atvinnuveganefndar Alþingis og  Sigurður Guðjónsson, forstjóri Hafrannsóknastofnunar og einn höfunda áhættumatsins.