Vorfundur stjórnar

Stjórn Samtaka sjávarútvegssveitarfélagaÍ seinustu viku hélt stjórn Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga vorfund sinn og var hann haldinn á Austfjörðum þar sem Páll Björgvin í Fjarðabyggð og Gauti frá Djúpavogi tóku á móti stjórninni.

Ferðaðist stjórnin um Austfirðina og heimsótti m.a. Neskaupstað, Eskifjörð, Reyðarfjörð, Fáskrúðsfjörð, Stöðvarfjörð, Mjóafjörð og Djúpavog. Haldnir voru fundir með Síldarvinnslunni, Loðnuvinnslunni, Eskju og Búlandstindi.

Ferðin var ansi fræðandi og gagnleg fyrir starf samtakanna. Meðfylgjandi mynd var tekin á Fáskrúðsfirði af stjórn samtakanna ásamt Steinþóri Péturssyni framkvæmdastjóra Fjarðabyggðarhafna.

Stjórn lýsir yfir þungum áhyggjum

jola01Á stjórnarfundi Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga sem haldinn var 15. janúar sl. var fjallað um viðskiptabann Rússlands á Ísland og eftirfarandi bókun samþykkt samhljóða:

Stjórn Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga lýsir yfir þungum áhyggjum vegna viðskiptabanns Rússlands á íslenskar sjávarafurðir. Ljóst er að viðskiptabannið hefur mikil áhrif á gjaldeyrisöflun þjóðarinnar og hefur hlutfallslega mun meiri áhrif á Íslandi samanborið við aðrar Evrópuþjóðir og Bandaríkin. Þau gögn sem fyrir liggja sýna að tekjutap sjómanna og landverkafólks er gríðarlegt vegna innflutningsbannsins, eða allt að 2,5 milljarðar að mati Byggðastofnunar. Þá mun bannið koma niður á sveitar- og hafnarsjóðum landsins, og metur Byggðastofnun það tap um 400 milljónir króna. Tekjutap sveitarfélaganna kann að koma niður á þjónustu við íbúa.

Stjórnin telur að samráð af hendi ríkisstjórnar Íslands hefði átt að verið við sjávarútvegssveitarfélög við undirbúning aðgerða um viðskiptaþvinganir á Rússland og skilgreina fyrirfram með hvaða hætti það tjón yrði bætt sem þau yrðu fyrir, myndu Rússnesk stjórnvöld beita íslenska þjóð viðskiptaþvingunum á móti. Það var ekki gert. Því er ljóst að verði sömu stefnu fylgt af hendi Íslands hvað þetta viðskiptabann varðar, þarf að leita leiða til að bæta íslenskum sjávarútvegssveitarfélögum það tjón sem af áframhaldandi viðskipabanni mun hljótast. Rétt eins og við önnur áföll sem dynja á. Er þess krafist að nú þegar verði sest niður með fulltrúum samtakanna til að fara yfir þau mál og finna leiðir í því hvernig tjónið verði bætt. Þá er ónefnt það framtíðartap sem mun skapast með tapaðri markaðshlutdeild, sem mun þá hafa meiri áhrif til framtíðar fyrir sjávarútvegssveitarfélög. Formanni falið að koma málinu á framfæri við þá aðila sem það snerta.

Stjórn fundaði með Sigurði Inga

Sigurdur-Ingi-JohannssonÍ gær, fimmtudaginn 26. nóvember, fundaði stjórn Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga með Sigurði Inga Jóhannessyni sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Á fundinum var rætt um tillögur að breytingum á lögum um stjórn fiskveiða og einnig helstu markmið og áherslur samtakanna.

 

Sveitarfélög fái hlutdeild í veiðigjaldi

Það er ósanngjarnt og óeðlilegt að þau samfélög sem í raun taka á sig afleiðingar af hagræðingu í sjávarútvegi, þurfi að bera þær ein og óstudd.

Svanfríður Inga Jónasdóttir, formaður Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga, flytur ávarp á ráðstefnunni Fiskur-olía-orka, hvert á arðurinn að renna?

Svanfríður Inga Jónasdóttir, formaður Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga, flytur ávarp á ráðstefnunni Fiskur-olía-orka, hvert á arðurinn að renna?

Þetta sagði Svanfríður Jónasdóttir í lok erindis síns á sjávarútvegsfundi sem haldinn var undir lok september sl. Erindi hennar nefndist „Af hverju veiðigjöld til sveitarfélaga?“. Svanfríður sagði að veiðigjöld væru kostnaðargjöld til að mæta þeim kostnaði sem ríkið verður fyrir vegna útvegsins; rannsóknir og eftirlit og í raun greiðsla fyrir aðgang að sameiginlegri auðlind okkar.

Í erindinu færði hún rök fyrir því af hverju sveitarfélög ættu að fá hlutdeild í veiðigjöldum. Hún benti á að miklar breytingar hafa orðið á veiðum og vinnslu í sjávarútvegi og að sveitarfélög hafi þurft að takast á við margvíslegar breytingar vegna þeirra. Á sl. átta árum hefur störfum við sjávarútveg fækkað um 5.000 og því þurfa sveitarfélögin og byggðirnar að mæta með einhverjum hætti.

Innleiðing kvótakerfisins leiddi til mikillar hagræðingar í sjávarútvegi og fækkunar starfa í veiðum og vinnslu. Krafa um veiðigjald leiðir til enn frekari hagræðingar í greininni og því fylgir fækkun starfa en fátt kemur í staðinn. „Allir hagnast á hagræðingu í sjávarútvegi nema sjávarbyggðirnar: þær líða vegna fækkunar starfa … og síðan fækkunaríbúa,“ sagði Svanfríður og bætti við:

Til þess að sveitarfélögin geti brugðist við þeim breytingum sem fylgja hagræðingu … er nauðsynlegt að þau fái hlutdeild í sérstaka veiðigjaldinu. Það er í anda sjálfbærrar þróunar sem verður einungis náð með því að undirstöðuþættir hennar, þ.e. efnahagur, umhverfi og samfélag, séu allir virtir.

 

 

 

Dæmt í máli Vestmannaeyjabæjar gegn Q44 og Síldarvinnslunni

Í gær þriðjudaginn 6. maí var kveðinn upp dómur í máli Vestmannaeyjar gegn Q44 og Síldarvinnslunni. Eftirfarandi fréttatilkynning var sent út af Vestmannaeyjabæ vegna málsins:

Fyrr í dag var kveðin upp dómur í máli Vestmannaeyjabæjar gegn Q44 og Síldarvinnslunni þar sem Vestmannaeyjabær krafðist þess að ógiltur yrði með dómi samningur um kaup Síldarvinnslunar á öllum eignarhlutum Q44 í Bergi-Huginn ehf. sem á og gerir út togarana Bergey VE 544 og Vestmannaey VE 444 ásamt aflaheimildum.  Dómari í málinu var Arnar Þór Jónsson.

Dómsorðið er sem hér segir:

„Ógiltur er samningur um kaup stefnanda, Síldarvinnslunar hf., á öllum eignarhlutum í Bergi-Huginn ehf. af stefnda, Q44 ehf,. dagsettur í ágúst 2012.  Þá er Síldarvinnslunni og og Q44 gert að greiða Vestmannaeyjabæ 3.000.000 í málskostnað.“

Vestmannaeyjabær fagnar þessari niðurstöðu og lítur á hana sem áfangasigur í baráttu íbúa sjávarútvegssveitarfélaga fyrir auknu atvinnuöryggi.  Dómurinn staðfestir rétt sveitarfélaga þegar kemur að kaupum og sölu fiskiskipa og aflaheimilda sem sannarlega geta svipt íbúa atvinnu þeirra og sveitarfélögin tilverugrunni sínum.

Sveitarstjórnarfólk, þingmenn og embættismenn sveitarfélaga eru málsvarar íbúana og á þeim hvílir sú skylda að bregðast við þegar hagsmunir þeirra eru í hættu.  Vestmannaeyjabær skorar því á þessa aðila að taka höndum saman í baráttu fyrir auknum rétti íbúa sjávarbyggða þegar kemur að atvinnuöryggi og sértækum skatti á atvinnulíf þeirra.  Vestmannaeyjabær mun ekki láta sitt eftir liggja í þeirri baráttu.

Fyrir hönd Vestmannaeyjabæjar
Elliði Vignisson
bæjarstjóri

Loðnufrysting á Vopnafirði gengur vel

LoðnufrystingFrysting á loðnu hófst í uppsjávarfrystihúsi HB Granda á Vopnafirði sl. föstudag eftir að Ingunn AK kom þangað með fyrsta loðnufarminn á vertíðinni. Að sögn Magnúsar Róbertssonar vinnslustjóra hófst frysting nú nokkrum dögum síðar en á vertíðinni í fyrra en þá hófst vinnslan 7. janúar.

„Frystingin gengur vel en loðnan er í smærri kantinum enn sem komið er. Við flokkum stærstu loðnuna frá og frystum í þá stærðarflokka sem markaður er fyrir en annað fer til framleiðslu á fiskmjöli og –lýsi,“ segir Magnús í samtali á vef HB Granda.

Nú um 75 til 80 manns við vinnu í frystihúsinu. Það er nokkru færra en kemur að vinnslunni þegar verið er að vinna síld en að sögn Magnúsar var síldarvinnslan óvenju stopul fyrir áramótin. Stafar það aðallega af því að lítið veiddist af síld í Breiðafirði og frátafir frá veiðum vegna veðurs voru miklar.

Er rætt var við Magnús undir kvöld í gær var verið að ljúka við að vinna loðnuafla úr Faxa RE en Lundey NS beið við bryggju og var næst í röðinni. Ingunn AK er á miðunum en veiðisvæðið nú er töluvert austar en þegar veiðar hófust í síðustu viku eða norður af Langanesi.

Af vef fiskifrétta.is