Þann 8. október kl. 13:00 verður aðalfundur Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga á Hilton Reykjavík Nordica.
Greinasafn fyrir flokkinn: Fréttir
Staða smærri sjávarbyggða 2014
Byggðastofnun hefur sent Sigurði Inga Jóhannsyni, ráðherra byggðamála, minnisblað um stöðu smærri sjávarbyggða 2014.
Minnisblaðið má nálgast hér.
Dæmt í máli Vestmannaeyjabæjar gegn Q44 og Síldarvinnslunni
Í gær þriðjudaginn 6. maí var kveðinn upp dómur í máli Vestmannaeyjar gegn Q44 og Síldarvinnslunni. Eftirfarandi fréttatilkynning var sent út af Vestmannaeyjabæ vegna málsins:
Fyrr í dag var kveðin upp dómur í máli Vestmannaeyjabæjar gegn Q44 og Síldarvinnslunni þar sem Vestmannaeyjabær krafðist þess að ógiltur yrði með dómi samningur um kaup Síldarvinnslunar á öllum eignarhlutum Q44 í Bergi-Huginn ehf. sem á og gerir út togarana Bergey VE 544 og Vestmannaey VE 444 ásamt aflaheimildum. Dómari í málinu var Arnar Þór Jónsson.
Dómsorðið er sem hér segir:
„Ógiltur er samningur um kaup stefnanda, Síldarvinnslunar hf., á öllum eignarhlutum í Bergi-Huginn ehf. af stefnda, Q44 ehf,. dagsettur í ágúst 2012. Þá er Síldarvinnslunni og og Q44 gert að greiða Vestmannaeyjabæ 3.000.000 í málskostnað.“
Vestmannaeyjabær fagnar þessari niðurstöðu og lítur á hana sem áfangasigur í baráttu íbúa sjávarútvegssveitarfélaga fyrir auknu atvinnuöryggi. Dómurinn staðfestir rétt sveitarfélaga þegar kemur að kaupum og sölu fiskiskipa og aflaheimilda sem sannarlega geta svipt íbúa atvinnu þeirra og sveitarfélögin tilverugrunni sínum.
Sveitarstjórnarfólk, þingmenn og embættismenn sveitarfélaga eru málsvarar íbúana og á þeim hvílir sú skylda að bregðast við þegar hagsmunir þeirra eru í hættu. Vestmannaeyjabær skorar því á þessa aðila að taka höndum saman í baráttu fyrir auknum rétti íbúa sjávarbyggða þegar kemur að atvinnuöryggi og sértækum skatti á atvinnulíf þeirra. Vestmannaeyjabær mun ekki láta sitt eftir liggja í þeirri baráttu.
Fyrir hönd Vestmannaeyjabæjar
Elliði Vignisson
bæjarstjóri
Loðnufrysting á Vopnafirði gengur vel
Frysting á loðnu hófst í uppsjávarfrystihúsi HB Granda á Vopnafirði sl. föstudag eftir að Ingunn AK kom þangað með fyrsta loðnufarminn á vertíðinni. Að sögn Magnúsar Róbertssonar vinnslustjóra hófst frysting nú nokkrum dögum síðar en á vertíðinni í fyrra en þá hófst vinnslan 7. janúar.
„Frystingin gengur vel en loðnan er í smærri kantinum enn sem komið er. Við flokkum stærstu loðnuna frá og frystum í þá stærðarflokka sem markaður er fyrir en annað fer til framleiðslu á fiskmjöli og –lýsi,“ segir Magnús í samtali á vef HB Granda.
Nú um 75 til 80 manns við vinnu í frystihúsinu. Það er nokkru færra en kemur að vinnslunni þegar verið er að vinna síld en að sögn Magnúsar var síldarvinnslan óvenju stopul fyrir áramótin. Stafar það aðallega af því að lítið veiddist af síld í Breiðafirði og frátafir frá veiðum vegna veðurs voru miklar.
Er rætt var við Magnús undir kvöld í gær var verið að ljúka við að vinna loðnuafla úr Faxa RE en Lundey NS beið við bryggju og var næst í röðinni. Ingunn AK er á miðunum en veiðisvæðið nú er töluvert austar en þegar veiðar hófust í síðustu viku eða norður af Langanesi.
Af vef fiskifrétta.is
Jóla og nýárskveðja
Svipaður útflutningur sjávarafurða
Á fyrstu tíu mánuðum ársins voru fluttar út sjávarafurðir fyrir 226 milljarðar króna sem er 1% samdráttur frá sama tíma í fyrra, að því er fram kemur í frétt á vef Hagstofu Íslands.
Fyrstu 10 mánuði ársins voru fluttar út vörur fyrir 508,9 milljarða króna. Iðnaðarvörur voru 51,4% alls útflutnings og var útflutningur þeirra 5,3% minni en á sama tíma árið áður. Sjávarafurðir voru 44,5% alls útflutnings. Samdráttur í útflutningi á iðnaðarvörum og sjávarafurðum stafar að hluta til af lækkun á verði afurða.
Mikilvægt að ná sátt um sjávarútveginn
Mikilvægt er að ná sátt um sjávarútveginn enda um að ræða undirstöðuatvinnuveg þjóðarinnar. Þetta kom fram í máli Bjarna Benediktssonar, fjármálaráðherra, í hringborðsumræðum í tónlistar- og ráðstefnuhúsinu Hörpu í tilefni af 100 ára afmæli Morgunblaðsins sem voru sýndar í beinni útsendingu hér á mbl.is
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, sagði að stefnt væri að því að fara svokallaða samningaleið í þeim efnum eins og Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegsráðherra, hefði kynnt og væri vinna hafin í sjávarútvegsráðuneytinu í þeim efnum. Benti hann á að síðasta ríkisstjórn Noregs, sem verið hefði vinstristjórn, hefði lagt áherslu á að ná sátt um sjávarútveginn þar í landi en síðasta vinstristjórn Íslands hefði hins vegar viðhaldið óvissu um sjávarútveginn hér á landi og ýtt reglulega undir hana. Nú væri hins vegar kominn stöðugleiki í þeim efnum hér á landi og ekkert að vanbúnaði að hefja uppbyggingu í greininni.
Bjarni benti á að ekki mætti gleyma að nýsköpun sprytti oft út frá grunnatvinnuvegunum. Fjöldi fyrirtækja byggði starfsemi sina á góðum árangri þar. Allur almenningur nyti raunar góðs af góðu gengi sjávarútvegsins. Hann sagði umræðuna um veiðigjald framan af hafa verið nokkuð málefnalega. Upphaflega hefði verið rætt um að koma á hóflegu gjaldi en umræðan væri nú komin langt frá upprunanum. Tímabært væri að umræðan yrði málefnalegri og snerist ekki um tímabundna fjárþörf ríkisins og slagorð.
Veiðileyfagjaldið renni aftur í hérað
Það er fólkið sem veiðir, vinnur og selur fiskinn sem býr til verðmætin. Það er þetta fólk sem á heimtingu á því að njóta sérstaks veiðileyfagjalds, ef það er lagt á,“ segir bæjarráði Vestmannaeyja.
Bæjarráðið hvetur þingmenn Suðurlands til að styðja þingsályktunartillögu um hlutdeild sveitarfélaga í veiðileyfagjaldi og tekjum af orkuauðlindum.
Skiptar skoðanir eru í bæjarráði og í bæjarstjórn um ágæti veiðileyfagjalds.
„Sumir bæjarfulltrúar telja að í því sé fólgin landsbyggðarskattur sem heftir vöxt og viðgang atvinnulífs á landsbyggðinni á meðan aðrir telja að nýting úr sameiginlegum auðlindum réttlæti greiðslu á sérstökum skatti. Eftir sem áður eru allir fulltrúar sammála því að ef leggja á sértækan skatt á landsbyggðina þá eigi sá skattur fyrst og fremst að renna til samfélaganna þar,“ segir bæjarráðið sem kveður núverandi ríkisstjórn hafa hækkað veiðileyfagjald á atvinnulífið í Vestmannaeyjum.
„Búast má við því að í ár renni um 2300 milljónir frá Vestmannaeyjum bara vegna þessa sérstaka gjalds sem Eyjamenn greiða umfram aðra.“
Frétt af vefnum www.visir.is 7. október 2013
Skráning á sjávarútvegsfundinn hafin
Skráning er hafin á sjávarútvegsfundinn, sem haldinn verður á Hilton Reykjavík Nordica hótel miðvikudaginn 2. október. Meðal efnis á dagskrá fundarins má nefna erindi Vilhjálms Egilssonar sem nefnist „Á fiskvinnslan að geta átt kvóta?“ Hann greinir m.a. frá þeim ástæðum og rökum sem nefndin hafði fyrir tillögu sinni. Viðbrögð við máli Vilhjálms veita: Guðný Sverrisdóttir, sveitarstjóri á Grenivík, Eyrún Ingibjörg Sigþórdóttir oddviti á Tálknafirði og Gyða Steinsdóttir, bæjarstjóri í Stykkishólmi.
Sjávarútvegsfundur 2013
Þann 2. október 2013 verður sjávarútvegsfundur Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga haldinn. Fundurinn verður haldinn á Hilton í tengslum við fjármálaráðstefnu Sambands íslenskra sveitarfélaga en fundurinn er hugsaður sem almennur kynningar- og fræðslufundur fyrir starfsmenn, stjórnendur og bæjarfulltrúa aðildarsveitarfélaga. Sjávarútvegsfundurinn er þó opinn öllum.