Dæmt í máli Vestmannaeyjabæjar gegn Q44 og Síldarvinnslunni

Í gær þriðjudaginn 6. maí var kveðinn upp dómur í máli Vestmannaeyjar gegn Q44 og Síldarvinnslunni. Eftirfarandi fréttatilkynning var sent út af Vestmannaeyjabæ vegna málsins:

Fyrr í dag var kveðin upp dómur í máli Vestmannaeyjabæjar gegn Q44 og Síldarvinnslunni þar sem Vestmannaeyjabær krafðist þess að ógiltur yrði með dómi samningur um kaup Síldarvinnslunar á öllum eignarhlutum Q44 í Bergi-Huginn ehf. sem á og gerir út togarana Bergey VE 544 og Vestmannaey VE 444 ásamt aflaheimildum.  Dómari í málinu var Arnar Þór Jónsson.

Dómsorðið er sem hér segir:

„Ógiltur er samningur um kaup stefnanda, Síldarvinnslunar hf., á öllum eignarhlutum í Bergi-Huginn ehf. af stefnda, Q44 ehf,. dagsettur í ágúst 2012.  Þá er Síldarvinnslunni og og Q44 gert að greiða Vestmannaeyjabæ 3.000.000 í málskostnað.“

Vestmannaeyjabær fagnar þessari niðurstöðu og lítur á hana sem áfangasigur í baráttu íbúa sjávarútvegssveitarfélaga fyrir auknu atvinnuöryggi.  Dómurinn staðfestir rétt sveitarfélaga þegar kemur að kaupum og sölu fiskiskipa og aflaheimilda sem sannarlega geta svipt íbúa atvinnu þeirra og sveitarfélögin tilverugrunni sínum.

Sveitarstjórnarfólk, þingmenn og embættismenn sveitarfélaga eru málsvarar íbúana og á þeim hvílir sú skylda að bregðast við þegar hagsmunir þeirra eru í hættu.  Vestmannaeyjabær skorar því á þessa aðila að taka höndum saman í baráttu fyrir auknum rétti íbúa sjávarbyggða þegar kemur að atvinnuöryggi og sértækum skatti á atvinnulíf þeirra.  Vestmannaeyjabær mun ekki láta sitt eftir liggja í þeirri baráttu.

Fyrir hönd Vestmannaeyjabæjar
Elliði Vignisson
bæjarstjóri