Á fundi stjórnar Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga sem haldinn var 12. maí sl. var eftirfarandi bókun samþykkt samhljóða:
Stjórn sjávarútvegssveitarfélaga tekur undir áhyggjur sveitarstjórna og íbúa þeirra sjávarbyggða sem horfa fram á flutninga á atvinnutækifærum og brottflutning fólks frá Djúpavogi, Húsavík og Þingeyri. Ekkert sveitarfélag kemst í gegnum högg sem þetta án stuðnings frá hinu opinbera.
Samtök sjávarútvegssveitarfélaga gera þá skýru kröfu að fleiri leiða verði leitað en að gera sjávarútveginn ábyrgan fyrir byggðaþróun í landinu. Auknar varnir fyrir sjávarbyggðirnar og íbúa þeirra verður að byggja inn í lögin um stjórn fiskveiða, og færa sveitarstjórnum sjávarútvegssveitarfélaganna raunhæf tæki til að takast á við þær breytingar sem fylgja aukinni hagræðingarkröfu í sjávarútvegi og breytingu á löggjöf.
Samtökin óttast þær blikur sem nú eru á lofti vegna hagræðingaraðgerða Vísis, og minna á að sífelld samþjöppun í sjávarútvegi er afleiðing krafna um hagkvæmari rekstur og birtingarmynd þeirra aðstæðna sem greinin býr við. Því má ætla að þessar breytingar séu einungis hluti af þeim breytingum sem áfram má vænta.
Samtök sjávarútvegssveitarfélaga gera kröfu til þess að ríkisvaldið kannist við ábyrgð og aðstoði viðkomandi sjávarbyggðir í bráð, en leiti einnig raunhæfra leiða til að sjávarútvegssveitarfélögin geti betur tekist á við þær breytingar sem eru, og verða áfram í sjávarbyggðunum. Það er grundvallaratriði í byggðaþróun á Íslandi.
Samtökin lýsa sig reiðubúin að koma að stefnumótun og vinnu í þessum efnum.