Aðalfundur 2018

Aðalfundur Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga verður haldinn miðvikudaginn 10. október nk. kl. 12:15 á Hótel Hilton Reykjavík Nordica Suðurlandsbraut 2.

Dagskrá:

  1. Skýrsla stjórnar
  2. Ársreikningur
  3. Starfs- og fjárhagsáætlun samtakanna ásamt ákvörðun um árgjöld og þóknun stjórnar
  4. Lagabreytingar
  5. Kosning formanns stjórnar, annarra stjórnarmenn og varastjórnar til tveggja ára
  6. Kosning tveggja skoðunarmanna og tveggja til vara til tveggja ára
  7. Önnur mál

Dagskráin er kynnt með fyrirvara um breytingar.

Vakin er athygli á því að einn fulltrúi þarf í það minnsta að mæta frá hverju aðildarsveitarfélagi. Einnig eru aðildarsveitarfélög vinsamlegast beðin um að skrá alla fulltrúa ef fleiri en einn mæta fyrir hönd viðkomandi sveitarfélags.

Þeir aðilar sem vilja gefa kost á sér til stjórnarsetu í samtökunum eru vinsamlegast beðnir um að hafa samband við Gauta Jóhannesson, formann samtakanna, gauti@djupavogur.is.

 

Endurnýjaður kynningarvefur stjórnvalda um sjávarútveg

Ábyrg og sjálfbær nýting auðlinda hafsins er hornsteinn stefnu íslenskra stjórnvalda í  sjávarútvegsmálum. Vefurinn fisheries.is er upplýsingavefur stjórnvalda á ensku um íslenskan sjávarútveg og hefur hann nú verið endurnýjaður.

Markmiðið með vefnum er að sýna með rökum að Íslendingar verðskuldi traust í sjávarútvegsmálum og eru aflareglur fyrir alla helstu nytjastofna og yfirlýsing stjórnvalda um ábyrgar fiskveiðar grunnurinn að því. Vefnum er skipt upp í sex efnisflokka og fjalla þeir um i) stjórnun fiskveiða, ii) helstu fisktegundir, iii) alþjóðlegt samstarf, iv) fiskvinnslu, v) fiskeldi og vi) söguágrip.

Umdeilt frumvarp um haf- og strandsvæðaskipulag

Svæðisráðum verður fengið það hlutverk, skv. 5. grein frumvarpsins, að afgreiða haf- og strandsvæðaskipulag á sínu svæði hvert. Um allt að sjömanna einskiptisráð er að ræða, sem verða leyst upp að hverju svæðisskipulagi samþykktu og geta fulltrúar sveitarfélaga mest orðið tveir, ef fleiri sveitarfélög en þrjú eru á viðkomandi skipulagssvæði.

Aðrir sem eiga sæti í svæðisráði eru fulltrúi tilnefndur af Sambandi íslenskra sveitarfélaga og fjórir ráðuneytisfulltrúar, sem tilnefndir eru af jafnmörgum ráðuneytum eða ráðuneyti orkumála og ferðamála, sjávarútvegsmála, samgöngumála og umhverfis- og auðlindamála og skipar síðastnefnda ráðuneytið jafnframt formann hvers ráðs.

Í eldri umsögn lagði sambandið breytingar til sem styrkt hefðu stöðu heimafólks í svæðisráðum. Er, eins og áður segir, vonbrigðum lýst með að frumvarpið hafi verið endurflutt í óbreyttri mynd hvað fyrirhuguð svæðisráð snertir.

Sambandið leggur jafnframt áherslu á að í nefndaráliti umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis verði nálægðarreglan höfð í heiðri og að þess verði gætt að framkvæmd laganna verði í sem bestu samræmi við gildandi skipulagsáætlanir á hverjum stað. Er í þessu sambandi minnt á að í  skipulagslögum hafi þau sjónarmið verið lögð til grundvallar að engin skörun eigi sér stað á milli skipulagsstiga.

Sambandið vonast til, að löggjafinn endurskoði frumvarpið m.t.t. framkominna athugasemda, enda verulegir hagsmunir í húfi, ekki hvað síst hjá sjávarútvegssveitarfélögum sem eiga mörg hver allt sitt undir sjálfbærri nýtingu strandsvæða ásamt innfjörðum og flóum.

Umsögnin sambandsins er samin í góðu samráði við stjórn Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga. Í umsögn sinni tekur stjórn samtakanna að öllu leyti undir umsögn sambandsins nema því, að ekki er gengið nægilega langt hvað skipulagsskyldu sveitarfélaga snertir á strandsvæðum. Leggja samtökin þunga áherslu á, að forræði sveitarfélaga í skipulagi strandsvæða nái allt að einni sjómílu út frá grunnlínu landhelginnar.

Halda áfram að lesa

Umsögn um frumvarp til laga vegna fiskeldis

Samband íslenskra sveitarfélaga hefur gert í nánu samráði við Samtök sjávarútvegssveitarfélaga umsögn um frumvarp til laga vegna breytingu á ýmsum lagaákvæðum sem tengjast fiskeldi (lögleiðing áhættumats erfðablöndunar, úthlutun eldissvæða með auglýsingu, opinber birting auglýsinga, stjórnvaldsektir o.fl.)

Frumvarpinu er ætlað að skapa aukna sátt um uppbyggingu fiskeldis hér á landi og leggja grunn að því sem öflugri, ábyrgri og sjálfbærri atvinnugrein, en það byggir að stærstum hluta á tillögum starfshóps um stefnumótun í fiskeldi, sem settar eru fram í skýrslu til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Í umsögninni, sem er eins og áður segir unnin í nánu samráði við sjávarútvegssveitarfélögin, er m.a. bent á, að sveitarfélög, stéttarfélög og fulltrúar launþega telji að skilgreina verði betur samfélagsábyrgð fyrirtækja, bæði efnahagsleg og umhverfisleg. Kallað er því eftir, að slíkt ákvæði verði sett í frumvarpið, svo stuðla megi að enn frekari sátt um uppbyggingu greinarinnar.

Hér er jafnframt um mikilvægt atriði að ræða m.t.t. nýsamþykktrar stefnu samtakanna sem leggur áherslu á mikilvægi þess að fiskeldi hér á landi sé sjálfbært í alþjóðlegri skilgreiningu þess orðs, en sú skilgreining vísar ekki aðeins til umhverfis og náttúru heldur einnig samfélags.

Þá er einnig bent á mikilvægi þess, að hugað sé vel að högum nærsamfélagsins á hverjum stað og aðkomu staðbundinna stjórnvalda. Er í því sambandi m.a. lagt til að Hafrannsóknastofnun verði gert skylt að leita álits hjá staðbundnum stjórnvöldum og að við úthlutun eldissvæða verði tekið mið af stöðu einstakra byggða í atvinnulegu tilliti.

Síðast en ekki síst, er minnt á þá stefnumörkun Sambands íslenskra sveitarfélaga að skipulag strandsvæða, allt að einni sjómílu út frá grunnlínu landhelginnar, verði á forræði sveitarfélaga og að fyrirhugað auðlindagjald af fiskeldi renni, a.m.k. að stærstum hluta, beint til sveitarfélaga.

Frumvarpið gerir síðan ráð fyrir umtalsverðum breytingum á lögum nr. 71/2008 um fiskeldi:

  • Hafró skal gefa út áhættumat erfðablöndunar, eigi sjaldnar en á 3 ára fresti.
  • MAST tryggir að leyfilegt magn frjórra laxa samkvæmt rekstrarleyfi sé í samræmi við niðurstöður áhættumats erfðablöndunar á hverjum tíma.
  • Hafró skiptir tilteknu hafsvæði eða firði upp í eitt eða fleiri eldissvæði í samræmi við burðarþol hafsvæðis.
  • Ráðherra ákveður hvenær tilteknir firðir eða tiltekin hafsvæði verða metin til burðarþols.
  • Ráðherra, eða stofnun í hans umboði, úthluta eldissvæðum eftir opinbera auglýsingu og á grundvelli hagstæðasta tilboðs.
  • Starfsemi fiskeldisstöðva er áfram háð starfsleyfi frá Umhverfisstofnun og rekstrarleyfi frá MAST.
  • Umsóknir um rekstrarleyfi sem eru til meðferðar hjá MAST á svæðum sem ekki er búið að burðarþolsmeta, falla niður.
  • Gilt rekstrarleyfi á hafsvæði, sem ekki er búið að burðarþolsmeta, heldur gildi sínu.
  • MAST hættir að sinna umhverfiseftirliti á grundvelli þjónustusamnings við Umhverfisstofnun. Eftirlit verður í höndum Umhverfisstofnunar.
  • Meiri og tíðari upplýsingagjöf fiskeldisfyrirtækja til stjórnvalda.
  • Stjórnvöld fá heimild til að birta opinberlega tilteknar upplýsingar.
  • MAST auglýsir tillögu sína að rekstrarleyfi til fiskeldisfyrirtækja.
  • Rekstrarleyfishafar sem stunda eldi með lokuðum eldisbúnaði, og þeir sem stunda eldi í kvíum á ófrjóum laxi og regnbogasilungi verða undanþegnir árgjaldi í Umhverfissjóð sjókvíaeldis.
    Innra eftirlit fiskeldisstöðva – áhættumiðað eftirlit (vöktun tiltekinna þátta, verklagsreglur og gæðahandbók).
  • Aðgerðir vegna laxalúsar.
  • Heimild til styrkveitinga til veiðiréttarhafa úr Umhverfissjóði sjókvíaeldis felld niður.
  • Rekstrarleyfi fyrir eldi á ófrjóum eldisfiski endurskoðað, 5 árum frá útgáfu.
  • Skylduaðild fiskeldisstöðva að Landssambandi fiskeldisstöðva aflögð.
  • Tímabundnar rannsóknir Hafró.
  • Stjórnvaldssektir.
  • Skylda ráðherra til að leita umsagnar vegna allra reglugerða sem fyrirhugað er að setja skv. lögum nr. 71/2008 um fiskeldi, felld niður.
  • Rekstrarleyfi fyrir eldi á ófrjóum laxi felld niður ef nýting er ekki viðunandi.

Hvað er strandbúnaður

Ef þú villt kynna þér fiskeldi, skeldýra- og þörungarækt þá er tilvalið á mæta á ráðstefnuna Strandbúnað 2018 sem haldin verður á Grand Hóteli Reykjavík, dagana 19.-20. mars.

Tilgangur ráðstefnunnar er að stuðla að faglegri og fræðandi umfjöllun um strandbúnað og styðja þannig við menntun, rannsóknir, þróun og stefnumótun greinarinnarinnar.

Á ráðstefnunni eru 10 málstofur og um 60 erindi og eru fyrirlesarar bæði innlendir og erlendir.

Sjávarútvegurinn hefur dregið úr losun um 44%

Íslenskur sjávarútvegur hefur náð þeim einstaka árangri að uppfylla markmið Parísarsamkomulagsins. Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri SFS, fjallaði um aðgerðir innan sjávarútvegarins til að draga úr losun gróðurhúsaloftegunda á umhverfissráðstefnu Gallup nú nýlega.

Í máli Heiðrúnar Lindar kom m.a. fram, að það væri fjárhagslega hagkvæmt að draga úr losun. Sjávarútvegurinn hafi gert sér grein fyrir því og tekist hafi að draga markvisst úr losun með fjárfestingu í betri skipum og nýrri tækni.

Á ráðstefnunni kynnti Gallup umhverfiskönnun 2017, umfangsmikla könnun á afstöðu Íslendinga til umhverfismála. Athygli vakti að sögn Heiðrúnar Lindar að samkvæmt könnuninni, virðist margir telja að lítill árangur hafi náðst á vettvangi sjávarútvegsins í að takmarka losun gróðurhúsalofttegunda.

„Góð saga sjávarútvegarins í þessum efnum er því augljóslega ekki á almennu vitorði. Íslenskur sjávarútvegur hefur, fyrir sitt leyti og ein atvinnugreina hér á landi, náð markmiðum Parísarsamkomulagsins. Sjávarútvegur hefur þannig dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda um rúmlega 40% frá árinu 1990 og hyggst gera enn betur á komandi árum. Það er auðsýnilegt verk að vinna, að koma þessum góðu fréttum betur á framfæri,“ sagði framkvæmdastjóri SFS á umhverfisráðstefnunni, sem fram fór í Hörpu 11. janúar sl.

Ljósm. Stefán fyrir visir.is

http://www.visir.is/g/2014140229281

Skipulag haf- og strandsvæða

Samtök sjávarútvegsfélaga og Samtök sveitarfélaga á Austurlandi standa fyrir málþingi um skipulag haf- og strandsvæða miðvikudaginn 17. maí nk. frá kl. 09:15-12:00, í Þórðarbúð Austurvegi, Reyðarfirði.

Dagskrá

Ávarp: Björt Ólafsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra

Skipulag haf- og strandsvæða: Fyrir hvern og í hvaða tilgangi?
  • Steinunn Fjóla Sigurðardóttir, umhverfis- og auðlindaráðuneyti
  • Aðalsteinn Óskarsson, Fjórðungssamband Vestfirðinga
  • Páll Björgvin Guðmundsson, Fjarðabyggð
Pallborðsumræður
  • Björt Ólafsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra
  • Aðalsteinn Óskarsson, Fjórðungssamband Vestfirðinga
  • Guðjón Bragason, Samband íslenskra sveitarfélaga
  • Hafdís Hafliðadóttir, Skipulagsstofnun
  • Páll Björgvin Guðmundsson, Fjarðabyggð
  • Steinunn Fjóla Sigurðardóttir, umhverfis- og auðlindaráðuneyti
Samantekt
  • Jón Björn Hákonarson, varaformaður stjórnar Sambands sveitarfélaga á Austurlandi

Fundarstjóri: Gauti Jóhannesson, formaður Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga

Í lok málþingsins verður boðið upp á sameiginlegan hádegisverð. Nauðsynlegt er að skrá sig
á málþingið og í hádegisverð með því að senda tölvupóst á ssa@ssa.is fyrir 15. maí nk.

Ábyrgð aðila er mikil

Á fundi stjórnar Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga sem haldinn var 3. febrúar sl. var fjallað um sjómannaverkfallið sem nú stendur yfir. Eftirfarandi bókun var samþykkt samhljóða:

Stjórn Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga lýsir yfir miklum áhyggjum af þeirri stöðu sem komin er upp í sveitarfélögum allt í kringum landið í tengslum við verkfall sjómanna. Verkfallið hefur nú staðið í u.þ.b tvo mánuði og er farið að hafa mikil áhrif sem ekki einungis ná til samningsaðila, heldur einnig stöðu landverkafólks og þeirra sem vinna óbein störf í sjávarútvegi og eru ekki aðilar að kjarasamningi sjómanna og útgerðarmanna. Í jafn mikilvægri atvinnugrein og sjávarútvegi, er ábyrgð aðila mikil. Ljóst er að staðan er þegar orðin alvarleg í mörgum sjávarútvegssveitarfélögum og stefnir í óefni að óbreyttu.

Stjórn Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga hvetur samningsaðila og ríkisstjórn Íslands til að leita allra leiða til að liðka fyrir lausn málsins, þannig að koma megi í veg fyrir frekara tekjutap þjóðarbúsins í heild sinni.