Rækjuvinnsla hafin aftur á Hvammstanga

Rækjur

Meleyri á Hvammstanga, ein elsta rækjuverksmiðja landsins, hefur verið opnuð aftur, eftir stopula starfsemi undanfarin ár. Nesfiskur í Garði keypti verksmiðjuna, hefur ráðið 12 manns til vinnu og hyggst senda tvo togara á rækjuveiðar, að því er fram kemur í fréttum RÚV.

Þegar Meleyri var lokað árið 2006 misstu 20 manns vinnuna. Einhver starfsemi hefur verið síðustu árin í verksmiðjunni, mjög lítil síðasta árið. Ánægja ríkir á Hvammstanga með kaupin og eru nokkrar væntingar bundnar við starfsemina.

Baldvin Þór Bergþórsson, verkefnastjóri hjá Nesfiski, segir að ætlunin sé að vera með starfsemi fyrir 10-15 manns. Útlitið sé gott.

Til að byrja með verður unnin frosin rækja frá Kanada, en togararnir tveir, Berglín GK 300 og Sóley Sigurjóns GK 200, halda bráðlega á veiðar. Annar þeirra mun landa á Hvammstanga til að byrja með, segir ennfremur í frétt á RÚV.