Áhersluatriði nýrrar ríkisstjórnar varðandi sjávarútveg

IMG_6413_resizeHér að neðan má finna áhersluatriði nýrrar ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks er varða sjávarútveg.

Sjávarútvegur

  • Ríkisstjórnin leggur áherslu á áframhaldandi uppbyggingu í sjávarútvegi og vinnslu.
  • Samkeppnishæfni íslensks sjávarútvegs má efla enn frekar, ekki síst með aðgerðum er snúa að bættri meðferð afla, fjölbreyttari úrvinnslu afurða og nýtingu svokallaðra aukaafurða.
  • Stuðlað verður að uppbyggingu sjávarklasans með því að tryggja greininni gott starfsumhverfi, innleiða jákvæða hvata í regluverk og ýta undir vöruþróun og markaðssókn.
  • Ríkisstjórnin vill efla fræðslu og menntun í sjávarútvegi, bæði hvað varðar veiðar og vinnslu og ekki síst til þess að takast á við ný verkefni samfara vöruþróun, nýsköpun og markaðs- og sölustarfi. Haldið verður á lofti á alþjóðlegum vettvangi sjálfbærni veiðanna, hreinleika og gæðum afurðanna.
  • Mikilvægt er að skapa skilyrði til endurnýjunar skipastóls og búnaðar landvinnslu með aukna verðmætasköpun og hagsmuni og öryggi starfsfólks í huga.
  • Fiskveiðistjórnunarkerfið verður yfirfarið, meðal annars með tilliti til hagkvæmni, öryggis og kjara sjómanna og umhverfisverndar. Stefnt er að því að auka sveigjanleika í nýtingarstefnu án þess að fórna ábyrgri stjórnun og nýtingu veiðistofna. Grundvöllur fiskveiðistjórnunar verður aflamarkskerfi.
  • Ríkisstjórnin vill efla sátt um framtíðarskipulag greinarinnar. Áfram verður unnið með tillögu sáttanefndar sem starfaði áliðnu kjörtímabili um að samningsbundin réttindi um nýtingu aflaheimilda taki við af varanlegri úthlutun. Samningarnir feli í sér rétt til endurnýjunar að uppfylltum skilyrðum sem samningarnir kveði á um.
  • Stuðst verður áfram við þau félagslegu, byggðalegu og atvinnulegu úrræði sem gildandi fiskveiðistjórnarlöggjöf kveður á um. Í samráði við sveitarstjórnir og samtök í sjávarútvegi verður fyrirkomulag þessa endurskoðað.
  • Lög um veiðigjald verða endurskoðuð. Almennt gjald skal endurspegla afkomu útgerðarinnar í heild en sérstakt gjald taka sem mest mið af afkomu einstakra fyrirtækja.
  • Ríkisstjórnin mun í samráði við þá sem starfa í sjávarútvegi kanna kosti þess að koma á fót
  • vettvangi sem hafi það verkefni að fræða, kynna og upplýsa um gæði og kosti íslensks sjávarútvegs. Horft verður m.a. til skipulags Norðmanna hvað þetta varðar. Leitað verður leiða til að auka samráð og upplýsingaskipti Hafrannsóknastofnunar, útgerðar og sjómanna.