Yfirlýsing frá stjórn Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga

Þann 12. júlí 2025 sendi stjórn Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga frá sér eftirfarandi yfirlýsingu:

Stjórn Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga lýsir yfir vonbrigðum með hve litlar breytingar hafa verið gerðar á frumvarpi til laga um breytingu á veiðigjöldum, þótt vissulega hafi verið tekin jákvæð skref í meðförum atvinnuveganefndar í kjölfar málefnalegra samskipta samtakanna við nefndina og ráðherra. Má þar tiltaka hækkun hins svokallaða frítekjumarks, þrepaskiptingu hækkana veiðigjalda og fyrirhugað áhrifamat gjaldahækkana á stöðu sjávarútvegssveitarfélaga – sem samtökin hafa lagt mikla áherslu á.


Að óbreyttu er þó ljóst að hækkun veiðigjalda mun áfram bitna að langstærstu leyti á samfélögum á landsbyggðinni þar sem sjávarútvegur er burðarás í atvinnulífinu. Verulegar líkur eru á að hún komi harðast niður á smáum og meðalstórum útgerðum sem mun leiða til fækkunar starfandi fyrirtækja í greininni, enn frekari samþjöppunar aflaheimilda og að starfsemi fiskvinnsla leggist af í ákveðnum byggðarlögum.


Jákvæðu skrefin eru því að mati samtakanna of lítil og of fá, hækkunina á að innleiða mjög hratt, gjald á ákveðnar fisktegundir er illa ígrundað, áhrifamat mun liggja of seint fyrir og ekkert endurskoðunarákvæði er að finna í nýjum breytingartillögum meirihluta atvinnuveganefndar Alþingis.
Skynsamlegt hefði verið að mati samtakanna að fresta málinu til haustsins og hraða áhrifamati fyrirhugaðra breytinga á stöðu sjávarútvegssveitarfélaga og mati á fjárhagslegum áhrifum á sveitarfélög landsins í samræmi við sveitarstjórnarlög. Með því móti væri unnt að leggja fram vandaðra frumvarp með skynsamlegri innleiðingu hækkana á veiðigjöldum án þess að tefla framtíð einstakra byggðarlaga í tvísýnu.


Samtök sjávarútvegssveitarfélaga hvetja Alþingi til þess að hafa hagsmuni 80 þúsund íbúa í þessum sveitarfélögum til hliðsjónar þegar unnið er að breytingum á löggjöfinni.