Ungmenni sögð flýja ágengi fíkniefnasala

Formaður Drífandi stéttarfélags í Vestmannaeyjum segir fíkniefni hafa verið vandamál hjá Vinnslustöðinni. Fíkniefnasalar beini sjónum að ungmennum og sumir foreldrar leyfi þeim ekki að starfa hjá fyrirtækinu. Starfsfólkið hafi kvartað.

„Við vorum að fá kvartanir frá einstaka félagsmönnum um að ágengni vímuefnasala væri stundum til óþæginda fyrir þá í vinnunni,“ segir Arnar Hjaltalín, formaður Drífanda stéttarfélags, um fíkniefnapróf sem Vinnslustöðin í Vestmannaeyjum er að láta starfsfólk sitt gangast undir.

Eins og kom fram í Fréttablaðinu í gær voru ellefu sjómenn reknir af þremur skipum Vinnslustöðvarinnar eftir að hafa fallið á fíkniefnaprófum. Allt starfsfólk fyrirtækisins getur nú átt von á að þurfa að undirgangast slíkt próf.

Arnar segir fíkniefnaneysluna hafa verið falið vandamál. Komið hafi skriður á málið eftir að starfsfólk kvartaði undan neyslu sumra samstarfsmanna. Vinnslustöðin hafi haft samráð við stéttarfélögin um hvernig standa ætti að lyfjaprófunum. Drífandi hafi þótt fullvíðtækt að senda hvern einasta starfsmenn í próf en sú aðferð hafi þó orðið ofan á.

„Kannski er það líka sanngjarnast að láta eitt yfir alla ganga,“ segir Arnar, sem kveður flesta í Eyjum ánægða með að tekið sá á málinu. „Það hefur ýmislegt komið upp á yfirborðið eftir að þetta byrjaði. Þetta er rosaleg meinsemd en umræðan er að opnast. Þetta er nokkuð sem þarf að taka á og það er verið að því.“

Að sögn Arnars hafa fíkniefnasalar á köflum sótt hart að starfsfólki Vinnslustöðvarinnar, ekki síst ungmennum sem fái frí á vertíðum til að vinna í fiski og hafi þá nokkurt fé milli handa.

„Það var orðið þannig að sumir foreldrar vildu ekki að börnin sín væru að vinna þarna,“ segir Arnar. „Það hafa ungmenni hætt þarna út af því að þau fengu ekki frið fyrir sölumönnum. Þegar það kom upp var kýlt á að taka á því. Er Vinnslustöðin ekki einfaldlega að sýna samfélagslega ábyrgð með því að taka á þessu?“

Arnar Hjaltalín segir að starfsfólkið sé orðið langþreytt á ágengni fíkniefnasala á vinnustaðnum - Mynd/Óskar

Arnar Hjaltalín segir að starfsfólkið sé orðið langþreytt á ágengni fíkniefnasala á vinnustaðnum – Mynd/Óskar

Frétt og mynd af www.visir.is