Makrílkvótinn minnkaður um 15%

Makrílkvótinn verður 123.182 tonn á þessu ári. Steingrímur J. Sigfússon, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra hefur ákveðið makrílkvótann fyrir árið 2013. Kvótinn er minnkaður um 15% frá síðasta ári og er það í samræmi við veiðráðgjöf Alþjóða hafrannsóknarráðsins ICES. Nemur kvótinn þar með alls 123.182 tonnum á þessu ári, að því er fram kemur á vef atvinnuvegaráðuneytisins.

Árið 2012 er áætlað að heildarveiði Evrópusambandsins, Noregs, Íslands, Færeyja og Rússlands á makríl hafi verið 920 þúsund tonn og nam veiðihlutur Íslands um 16%. Færeyjar og Rússland hafa enn ekki gefið út makrílkvóta vegna ársins 2013, en hlutur Íslands mun haldast um 16% ef báðar þjóðirnar minnka sína veiði um 15%, eins og Noregur, ESB og nú Ísland hafa gert.

Makríll (Mynd: Þorbjörn Víglundsson)

Makríll (Mynd: Þorbjörn Víglundsson)

„Ákvörðun Noregs og ESB um að úthluta sér einhliða liðlega 90% af ráðlagðri veiði læsir málið inni í óbreyttri stöðu“ segir Steingrímur J. Sigfússon atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra. „Við getum ekki einir lækkað okkar hlutdeild meðan ekki nást sanngjarnir samningar, en á það leggjum við áfram mikla áherslu. Við núverandi aðstæður er því þessi ákvörðun næsta sjálftekin.“

Fréttin er tekin af vefnum www.fiskifrettir.is