Víðtæk áhrif verkfalls sjómanna

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið sendi í síðustu viku frá sér skýrslu þar sem lagt er mat á þjóðhagslegan kostnað af verkfalli sjómanna. Skýrslan er unnin að tilstuðlan sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sem skipaði nefnd fulltrúa úr fjórum ráðuneytum auk fulltrúa frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og sérfræðingum frá Íslenska sjávarklasanum.

Svo vitað sé er skýrsla þessi fyrsta tilraunin sem gerð er til að ná utan um þau efnahagslegu áhrif sem víðtæk vinnustöðvun meðal sjómanna, og þar af leiðandi mjög víðtæk framleiðslustöðvun í íslenskum sjávarútvegi, hefur á íslenska hagkerfið.

Í samandregnum niðurstöðum skýrslunnar kemur m.a. fram að áhrifa verkfallsins gætir víða og snertir fjárhagslega hagsmuni fjölmargra fyrirtækja, kjör ýmissa stétta og fjármál hins opinbera til skemmri og lengri tíma. Áhrifanna gætir með nokkuð misjöfnum hætti en gróflega áætlað tekjutap sveitarfélaga vegna lækkaðra útsvarsgreiðslna fiskverkafólks og sjómanna til 10. febrúar sl. er metið á rétt ríflega 1000 milljónir króna.

Læra um sjávarútveginn í gegnum nýja heimasíðu og smáforrit

Sjávarklasinn kynnir Trilluna, nýtt smáforrit (app) um íslenskan sjávarútveg, ásamt spurningaleik, sem ætlað er til fræðslu á grunnskólastigi. Markmið Trillunnar er að nemendur kynnist sjávarútveginum og hlutverki hans í íslensku samfélagi á skemmtilegan og líflegan máta. Sjávarútvegurinn spannar mjög vítt svið og ætlunin að kveikja áhuga nemenda á ólíkum hliðum þessa rótgróna en fjölbreytta atvinnuvegs.

Trillan varð til upp úr samstarfi menntastofnana í menntahópi Sjávarklasans. Heiðdís Skarphéðinsdóttir verkefnisstjóri hjá Sjávarklasanum hafði umsjón með þessu verkefni og undirbúningi þess fyrir hönd klasans. Milja Korpela hönnuður klasans hafði með höndum hönnun útlits.

Með heimasíðunni og forritinu verður bæði hægt að lesa sér til gagns og gaman sem og prófa kunnáttu sína á gagnvirkan og skemmtilegan hátt. Um er að ræða nýtt tól sem kennarar, foreldrar og aðrir geta notað til að fræða ungmenni um sjávarútveginn og tengdar atvinnugreinar.

untitledTrillan er liður í því að stuðla að auknum áhuga ungs fólks á íslenskum sjávarútvegi. Ekki hefur verið um auðugan garð að gresja í kennsluefni tengt sjávarútveginum í grunnskólum landsins og margir sem gera sér jafnvel ekki grein fyrir því að sjávarútvegurinn er ein meginuppistaðan í íslensku samfélagi.

Mikil breyting hefur orðið í íslensku skólakerfi á síðustu árum. Kennslan er orðin fjölbreyttari og fer að einhverju leyti fram í gegnum tölvur. Mikil eftirspurn er eftir íslenskum kennsluforritum og fjölgar þeim hratt. Það þykir því mikilvægt að mæta þessari þróun og kveikja áhuga nemenda á sjávarútvegi í gegnum smáforrit fyrir snjallsíma og spjaldtölvur.

Í aðalnámskrá grunnskólanna er þess krafist að nemendur öðlist skilning á sögu landsins og atvinnulífi. Verkefnið tengist því beint inn í aðalnámskrá grunnskólanna. Lífleg uppsetning fræðslu og gagnvirkra leikja er þó hannað með stóran markhóp í huga því ætlunin er að áhrifin séu víðfeðm og forritið innihaldi eitthvað sem allir hafi áhuga á.

Trillan er styrkt af Rannsóknarsjóði síldarútvegsins og Samtökum sjávarútvegssveitarfélaga. Námsefnið er fengið að stórum hluta frá Háskólanum á Akureyri (Bjarni Eiríksson, Hreiðar Þór Valtýsson og Hörður Sævaldsson) og neðansjávarmyndir eru frá Erlendi Bogasyni. Teikningar af fiskum eru eftir Jón Baldur Hlíðberg sem heldur úti vefsíðunni fauna.is. Annað efni er unnið af Íslenska sjávarklasanum.

Hægt er að nálgast forritið í Appstore og Playstore en heimasíða verkefnisins er www.trillan.is.

Nánari upplýsingar veitir Þór Sigfússon, hjá Íslenska sjávarklasanum, í síma 618-6200.

Aðalfundur Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga

Aðalfundur Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga verður haldinn á Hilton Reykjavík Nordica föstudaginn 23. september og hefst kl. 13:00.

  • Skýrsla stjórnar
  • Ársreikningar samtakanna
  • Starfs- og fjárhagsáætlun samtakanna ásamt ákvörðun um árgjöld og þóknun stjórnar
  • Kosning formanns stjórnar, annarra stjórnarmanna og varastjórnar til tveggja ára
  • Kosning tveggja skoðunarmanna og tveggja til vara til tveggja ára
  • Forkaupsréttur sveitarfélaga á aflaheimildum
    • Garðar Garðarsson, lögfræðingur hjá Landslög.
    • Arnór Snæbjörnsson, lögfræðingur hjá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu.
  • Umræður

Vinsamlega skráið ykkur til leiks hér að neðan.

Vorfundur stjórnar

Stjórn Samtaka sjávarútvegssveitarfélagaÍ seinustu viku hélt stjórn Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga vorfund sinn og var hann haldinn á Austfjörðum þar sem Páll Björgvin í Fjarðabyggð og Gauti frá Djúpavogi tóku á móti stjórninni.

Ferðaðist stjórnin um Austfirðina og heimsótti m.a. Neskaupstað, Eskifjörð, Reyðarfjörð, Fáskrúðsfjörð, Stöðvarfjörð, Mjóafjörð og Djúpavog. Haldnir voru fundir með Síldarvinnslunni, Loðnuvinnslunni, Eskju og Búlandstindi.

Ferðin var ansi fræðandi og gagnleg fyrir starf samtakanna. Meðfylgjandi mynd var tekin á Fáskrúðsfirði af stjórn samtakanna ásamt Steinþóri Péturssyni framkvæmdastjóra Fjarðabyggðarhafna.

Stjórn lýsir yfir þungum áhyggjum

jola01Á stjórnarfundi Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga sem haldinn var 15. janúar sl. var fjallað um viðskiptabann Rússlands á Ísland og eftirfarandi bókun samþykkt samhljóða:

Stjórn Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga lýsir yfir þungum áhyggjum vegna viðskiptabanns Rússlands á íslenskar sjávarafurðir. Ljóst er að viðskiptabannið hefur mikil áhrif á gjaldeyrisöflun þjóðarinnar og hefur hlutfallslega mun meiri áhrif á Íslandi samanborið við aðrar Evrópuþjóðir og Bandaríkin. Þau gögn sem fyrir liggja sýna að tekjutap sjómanna og landverkafólks er gríðarlegt vegna innflutningsbannsins, eða allt að 2,5 milljarðar að mati Byggðastofnunar. Þá mun bannið koma niður á sveitar- og hafnarsjóðum landsins, og metur Byggðastofnun það tap um 400 milljónir króna. Tekjutap sveitarfélaganna kann að koma niður á þjónustu við íbúa.

Stjórnin telur að samráð af hendi ríkisstjórnar Íslands hefði átt að verið við sjávarútvegssveitarfélög við undirbúning aðgerða um viðskiptaþvinganir á Rússland og skilgreina fyrirfram með hvaða hætti það tjón yrði bætt sem þau yrðu fyrir, myndu Rússnesk stjórnvöld beita íslenska þjóð viðskiptaþvingunum á móti. Það var ekki gert. Því er ljóst að verði sömu stefnu fylgt af hendi Íslands hvað þetta viðskiptabann varðar, þarf að leita leiða til að bæta íslenskum sjávarútvegssveitarfélögum það tjón sem af áframhaldandi viðskipabanni mun hljótast. Rétt eins og við önnur áföll sem dynja á. Er þess krafist að nú þegar verði sest niður með fulltrúum samtakanna til að fara yfir þau mál og finna leiðir í því hvernig tjónið verði bætt. Þá er ónefnt það framtíðartap sem mun skapast með tapaðri markaðshlutdeild, sem mun þá hafa meiri áhrif til framtíðar fyrir sjávarútvegssveitarfélög. Formanni falið að koma málinu á framfæri við þá aðila sem það snerta.

Stjórn fundaði með Sigurði Inga

Sigurdur-Ingi-JohannssonÍ gær, fimmtudaginn 26. nóvember, fundaði stjórn Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga með Sigurði Inga Jóhannessyni sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Á fundinum var rætt um tillögur að breytingum á lögum um stjórn fiskveiða og einnig helstu markmið og áherslur samtakanna.

 

Sveitarfélög fái hlutdeild í veiðigjaldi

Það er ósanngjarnt og óeðlilegt að þau samfélög sem í raun taka á sig afleiðingar af hagræðingu í sjávarútvegi, þurfi að bera þær ein og óstudd.

Svanfríður Inga Jónasdóttir, formaður Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga, flytur ávarp á ráðstefnunni Fiskur-olía-orka, hvert á arðurinn að renna?

Svanfríður Inga Jónasdóttir, formaður Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga, flytur ávarp á ráðstefnunni Fiskur-olía-orka, hvert á arðurinn að renna?

Þetta sagði Svanfríður Jónasdóttir í lok erindis síns á sjávarútvegsfundi sem haldinn var undir lok september sl. Erindi hennar nefndist „Af hverju veiðigjöld til sveitarfélaga?“. Svanfríður sagði að veiðigjöld væru kostnaðargjöld til að mæta þeim kostnaði sem ríkið verður fyrir vegna útvegsins; rannsóknir og eftirlit og í raun greiðsla fyrir aðgang að sameiginlegri auðlind okkar.

Í erindinu færði hún rök fyrir því af hverju sveitarfélög ættu að fá hlutdeild í veiðigjöldum. Hún benti á að miklar breytingar hafa orðið á veiðum og vinnslu í sjávarútvegi og að sveitarfélög hafi þurft að takast á við margvíslegar breytingar vegna þeirra. Á sl. átta árum hefur störfum við sjávarútveg fækkað um 5.000 og því þurfa sveitarfélögin og byggðirnar að mæta með einhverjum hætti.

Innleiðing kvótakerfisins leiddi til mikillar hagræðingar í sjávarútvegi og fækkunar starfa í veiðum og vinnslu. Krafa um veiðigjald leiðir til enn frekari hagræðingar í greininni og því fylgir fækkun starfa en fátt kemur í staðinn. „Allir hagnast á hagræðingu í sjávarútvegi nema sjávarbyggðirnar: þær líða vegna fækkunar starfa … og síðan fækkunaríbúa,“ sagði Svanfríður og bætti við:

Til þess að sveitarfélögin geti brugðist við þeim breytingum sem fylgja hagræðingu … er nauðsynlegt að þau fái hlutdeild í sérstaka veiðigjaldinu. Það er í anda sjálfbærrar þróunar sem verður einungis náð með því að undirstöðuþættir hennar, þ.e. efnahagur, umhverfi og samfélag, séu allir virtir.