Frysting á loðnu hófst í uppsjávarfrystihúsi HB Granda á Vopnafirði sl. föstudag eftir að Ingunn AK kom þangað með fyrsta loðnufarminn á vertíðinni. Að sögn Magnúsar Róbertssonar vinnslustjóra hófst frysting nú nokkrum dögum síðar en á vertíðinni í fyrra en þá hófst vinnslan 7. janúar.
„Frystingin gengur vel en loðnan er í smærri kantinum enn sem komið er. Við flokkum stærstu loðnuna frá og frystum í þá stærðarflokka sem markaður er fyrir en annað fer til framleiðslu á fiskmjöli og –lýsi,“ segir Magnús í samtali á vef HB Granda.
Nú um 75 til 80 manns við vinnu í frystihúsinu. Það er nokkru færra en kemur að vinnslunni þegar verið er að vinna síld en að sögn Magnúsar var síldarvinnslan óvenju stopul fyrir áramótin. Stafar það aðallega af því að lítið veiddist af síld í Breiðafirði og frátafir frá veiðum vegna veðurs voru miklar.
Er rætt var við Magnús undir kvöld í gær var verið að ljúka við að vinna loðnuafla úr Faxa RE en Lundey NS beið við bryggju og var næst í röðinni. Ingunn AK er á miðunum en veiðisvæðið nú er töluvert austar en þegar veiðar hófust í síðustu viku eða norður af Langanesi.
Af vef fiskifrétta.is