Greining á áhrifum laxeldis á efnahag og íbúaþróun við Djúp

Fiskeldi hefði veruleg áhrif til betri vegar á efnahag og íbúaþróun, samkvæmt niðurstöðum greiningar sem KPMG hefur unnið fyrir Fjórðungssamband Vestfirðinga á laxeldi í Ísafjarðardjúpi. Um 410 ný störf, þar af 150 afleidd og 900 nýir íbúar eru á meðal þess sem vænta má af 25 þús. tonna laxeldi.

Fiskeldi er vaxandi atvinnugrein um allan heim og hefur í heild sinni tekið fram úr villtum stofnum í aflamagni talið. Laxeldi er lang stærsta eldisgreinin, með um 2,4 milljón tonna framleiðslu í árslok 2015 og hefur greinin vaxið bæði hratt og stöðugt síðasta aldarfjórðung.

Nágrannalönd Íslands hafa ekki farið varhluta af þessari þróun og er laxeldi orðin mjög umfangsmikil atvinnugrein bæði í Noregi og Færeyjum og einnig hefur verið töluverður vöxtur á Írlandi og Skotlandi.

Á heimsvísu er talið að 18,7 milljónir manna starfi við fiskrækt af ýmsum toga um þessar mundir og nemur aukning starfa um 50% frá síðustu aldamótum. Þar sem að hér er um grunnatvinnuveg að ræða er áætlað að margfeldisáhrif beinna starfa í þessari grein sé um þre- til ferföld.

Skýrsla með meginniðurstöðum greiningarinnar kom út í september á síðasta ári. Til grundvallar var lagt burðarþolsmat Hafrannsóknarstofnunar á Ísafjarðardjúpi vegna fiskleldis og leyfir allt að 30 þús. tonna lífmassa á hverjum tíma. Engin framleiðsla hefur þó farið af stað þar sem stofnunin leggst gegn laxeldi í Djúpinu með vísan í Áhættumat hennar á erfðablöndun eldisfiska við viltan lax.

Auk burðarþols Hafrannsóknastofnunarinnar vísar greining KPMG til sjálfbærar þróunar og þess jafnvægis sem gæta verður skv. þeirri hugmyndafræði á milli umhverfis, samfélag og efnahags.

Á meðal þess sem greiningin nær til er fjöldi starfa, tekjur og gjöld ríkis og sveitarfélaga og íbúaþróun samfara 25 þ. tonna fiskeldi. Einnig eru hagræn og samfélagsleg borin saman áhrif fiskeldis annars vegar og laxveiða hins vegar á svæðinu.