Samþykktir

Samþykktir Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga

1. gr.

Nafn samtakanna er Samtök sjávarútvegssveitarfélaga. Lögheimili þess og aðsetur er hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga.

2. gr.

Sveitarfélög sem hafa mikla beina hagsmuni af sjávarútvegi og sjókvíaeldi, s.s. vegna þess að úthlutað aflamark er hátt á hvern íbúa og/eða hlutfall starfa í veiðum, sjókvíaeldi og vinnslu er hátt, geta gerst aðilar að samtökunum.

Hægt er að veita undanþágu frá fyrrgreindum ákvæðum í sérstökum tilvikum og skal slík undanþága samþykkt með 2/3 greiddra atkvæða á aðalfundi.

Ef sveitarfélag óskar að segja sig úr samtökunum skal tilkynna það skriflega og miðast úrsögnin við næsta aðalfund eftir að tilkynning um úrsögn berst.

3. gr.

SS eru samtök sveitarfélaga sem hafa beinna hagsmuna að gæta varðandi nýtingu sjávarauðlindarinnar og er tilgangur samtakanna:

  • að standa vörð um hagsmuni aðildarsveitarfélaga og íbúa þeirra í öllum málum sem tengjast nýtingu auðlinda í veiðum, sjókvíaeldi og vinnslu.
  • að vinna að hvers konar sameiginlegum hagsmunamálum, s.s. við gerð laga og reglugerða sem varða sjávarútveg og sjókvíaeldi og stuðla að fræðslu og kynningu á málum sem því tengjast.
  • að taka þátt í mótun reglna um gjaldtöku vegna nýtingar sjávarauðlindarinnar og skiptingu á því gjaldi milli ríkis og sveitarfélaganna, ásamt öðrum fjárhagslegum og umhverfislegum atriðum sem tengjast nýtingu sjávarauðlindarinnar.
  • Að miðla upplýsingum og reynslu meðal aðildarsveitarfélaga um málaflokkinn.

4. gr.

Aðalfundur SS hefur æðsta vald í málefnum samtakanna.  Aðalfund skal halda í september- eða októbermánuði annað hvert ár og skal haldið á sléttum ártölum. Á aðalfundi starfa starfsnefndir skv. ákvörðun fundarins, þ.á m. kjörnefnd.

Kjörgengir á aðalfund SS og í stjórn samtakanna eru kjörnir fulltrúar í sveitarstjórnum aðildarsveitarfélaga og starfsmenn þeirra. Láti aðal- eða varamaður í stjórn af starfi á vettvangi sveitarfélaga, eða hættir í sveitarstjórn, þá fellur umboð hans niður.

Kjörnir fulltrúar í sveitarstjórnum, svo og starfsmenn sveitarfélaga, halda umboði sínu í stjórn  að afloknum sveitarstjórnarkosningum til og með næsta aðalfundi.

5. gr.

Öll aðildarsveitarfélög hafa seturétt á aðalfundi og velja þau fulltrúa með atkvæðisrétt á aðalfund. Hvert sveitarfélag hefur eitt atkvæði við atkvæðagreiðslur en allir þingfulltrúar hafa málfrelsi og tillögurétt. Aðildarsveitarfélög skulu tilgreina með tilnefningu hver fulltrúa sveitarfélagsins fer með atkvæði þess.

Skilyrði atkvæðisréttar er að viðkomandi sveitarfélag sé skuldlaust við samtökin.

6.gr.

Stjórn SS skal boða til aðalfundar eigi síðar en tveimur vikum fyrir fundardag. Fundarboði skulu fylgja dagskrá fundarins, drög að skýrslu stjórnar, ársreikningar samtakanna, tillaga að fjárhagsáætlun og tillögur um lagabreytingar.

Aðalfundur skal ákvarða hverju sinni árgjöld aðildarsveitarfélaga þannig að samanlögð árgjöld nægi til þess að standa straum af kostnaði við rekstur samtakanna.
Stjórn samtakanna skal leggja fram tillögu um árgjöld fyrir hvert þing. Við ákvörðun árgjalda skal taka sanngjarnt tillit til íbúafjölda aðildarsveitarfélaga.

7.gr.

Á dagskrá aðalfundar SS skal m.a. taka fyrir eftirfarandi:

  1. a) skýrslu stjórnar,
  2. b) ársreikninga samtakanna,
  3. c) starfs- og fjárhagsáætlun samtakanna ásamt ákvörðun um árgjöld og þóknun stjórnar,
  4. d) lagabreytingar,
  5. e) kosningu formanns stjórnar, annarra stjórnarmenn og varastjórnar til tveggja ára,
  6. f) kosningu tveggja skoðunarmanna og tveggja til vara til tveggja ára,
  7. g) mál sem stjórn samtakanna, einstakir fulltrúar eða sveitarstjórnir óska að tekin verði fyrir.

8. gr.

Heimilt er stjórninni að boða til aukaaðalfundar, ef þörf krefur. Aukaaðalfund skal boða með a.m.k. tveggja vikna fyrirvara. Aukaaðalfundur getur einungis tekið fyrir mál sem getið er í fundarboði.

9.gr.

Þau ár sem ekki er haldinn aðalfundur skal halda sjávarútvegsfund. Sjávarútvegsfundur er ætlaður sem almennur kynningar- og fræðslufundur fyrir starfsmenn, stjórnendur og bæjarfulltrúa aðildarsveitarfélaga  um tiltekin málefni sem stjórnin ákveður. Sjávarútvegsfundur er öllum opinn og tekur ekki ákvarðanir í málefnum SS en getur beint ályktunum til stjórnar samtakanna.

10. gr.

Stjórn SS skal skipuð fimm aðilum og þremur til vara. Skulu þeir kosnir á aðalfundi samtakanna, sbr. 5. gr. e-lið. Aðalfundur kýs formann sérstaklega, en að öðru leyti skiptir stjórnin með sér verkum. Kjörtímabil stjórnar er tvö ár.  Við kjör stjórnar skal leitast við að fulltrúar í stjórn samtakanna endurspegli sem best fjölbreytni þeirra sveitarfélaga sem eru aðilar að Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga og skal hlutfall kynja í stjórn vera eins jafnt og kostur er, annars vegar í aðalstjórn og hins vegar í varastjórn.

Segi fulltrúi sig úr stjórn SS eða lætur af störfum í sveitarstjórn eða hjá sveitarfélagi, ákveður stjórn hvaða varafulltrúi tekur sæti hans. Við ákvörðun sína skal stjórn taka tillit til niðurstöðu úr stjórnarkjöri og ofangreindra reglna um samsetningu stjórnar.

11.gr.

Stjórn samtakanna ræður málum þess milli þinga.

Stjórnin skal halda a.m.k. fimm stjórnarfundi á ári. Stjórnarformaður boðar stjórnarmenn saman til funda.  Heimilt er að halda símafundi eða nota fjarfundarbúnað og gilda sömu reglur um þá fundi og aðra fundi. Stjórnin heldur gerðabók og skulu endurrit fundargerða send aðildarsveitarfélögum.

Stjórninni er heimilt að skipa starfsnefndir um einstök mál og ákveða þóknun til nefndarmanna.

12. gr.

Reikningsár SS skal vera almanaksárið.

Stjórn SS samþykkir ársreikninga samtakanna eftir að þeir hafa verið kynntir aðildarsveitarfélögum og yfirfarnir af skoðunarmönnum, en þeir eru síðan lagðir fram á næsta aðalfundi til staðfestingar.

Starfs- og fjárhagsáætlun til næstu tveggja ára skal lögð fram á aðalfundi til samþykktar.

Stjórn samtakanna getur breytt fjárhagsáætlun milli þinga eftir að breytingartillögurnar hafa verið kynntar aðildarsveitarfélögum. Stjórn er þó ekki heimilt að auka heildarútgjöld samtakanna nema að því marki að tekjur hrökkvi til.

13. gr.

Samþykktum þessum má breyta á aðalfundi. Til lagabreytinga þarf 2/3 hluta atkvæða mættra fulltrúa.

14. gr.

Ákvörðun um slit samtakanna verður aðeins tekin á aðalfundi með 2/3 hluta atkvæða. Verði slík tillaga samþykkt skulu eignir samtakanna renna til Sambands íslenskra sveitarfélaga til varðveislu en verði önnur samtök stofnuð í sambærilegum tilgangi skulu eignirnar renna til þeirra.

Samþykktir þessi öðlast þegar gildi.