Stofnfundur samtakanna var 26. september 2012 og voru 24 sveitarfélög stofnaðilar að samtökunum. Samtök sjávarútvegssveitarfélaga eru samtök þeirra sveitarfélaga sem hafa beinna hagsmuna að gæta varðandi nýtingu sjávarauðlindarinnar, veiðar og vinnslu, og er tilgangur samtakanna að vinna að sameiginlegum hagsmunum aðildarsveitarfélaga og íbúa þeirra í þeim málum sem tengjast nýtingu sjávarauðlindarinnar.
Eftirfarandi ályktun var samþykkt á stofnfundi samtakanna:
„Því fólki sem hefur beina atvinnu af veiðum og vinnslu hefur fækkað alla síðustu öld. Sú þróun er enn í gangi. Þekking, tækniframfarir og krafa um aukna hagræðingu og framlegð hafa afgerandi áhrif á fjölda starfa í veiðum og vinnslu, og þá jafnframt á íbúafjölda og stöðu sjávarútvegssveitarfélaganna. Þessar breytingar hafa verið einn stærsti áhrifavaldur í byggðaþróun undanfarna áratugi. Ný störf, þekkingarstörf og eftirlit, sem orðið hafa til við þessar breytingar hafa ekki að sama skapi orðið til á sjávarútvegsstöðunum og hafa slík störf á vegum ríkisins haft tilhneigingu til að hnappast saman á höfuðborgarsvæðinu. Þá hafa sífelldar breytingar á starfsumhverfi sjávarútvegsins fremur aukið á óöryggi þess fólks sem vinnur í greininni og þá í leiðinni þeirra sveitarfélaga sem eru mjög háð atvinnu og tekjum af veiðum og vinnslu. Mikilvægt er að við breytingar á lögum og reglum er varða sjávarútveginn sé horft til þess að treysta starfsumhverfi þess fólks sem starfar í greininni.
Með lögum um sérstakt veiðigjald er enn hert á kröfunni um hagræðingu í greininni. Til þess að sveitarfélögin geti brugðist við þeim breytingum sem því munu fylgja, svo sem fækkun starfa, er nauðsynlegt að þau fái hlutdeild í sérstaka veiðigjaldinu. Fundurinn felur stjórn samtakanna að kynna þá kröfu fyrir stjórnvöldum og fylgja málinu fast eftir.
Þá samþykkir fundurinn að fela stjórn að kanna með hvaða hætti sé unnt að dreifa þeim ríkisstörfum sem þjóna sjávarútvegi betur um landið.
Sjávarútvegurinn hefur verið og er enn ein mikilvægasta efnahagsstoð þjóðarbúsins. Meðfram strandlengjunni allri eru byggðarlög sem reiða sig nánast eingöngu á veiðar og vinnslu. Með stofnun Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga er horft til þess að skapa öflugan sameiginlegan vettvang til sóknar og varnar fyrir sjávarútvegssamfélögin. Sjávarútvegssveitarfélög sem ganga til liðs við samtökin fyrir lok október 2012 teljast stofnfélagar.“
Starfsmaður samtakanna er Valgerður Freyja Ágústsdóttir.
Netfang hennar er valgerdur@samband.is.
Merki Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga