Ábyrgð aðila er mikil

Á fundi stjórnar Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga sem haldinn var 3. febrúar sl. var fjallað um sjómannaverkfallið sem nú stendur yfir. Eftirfarandi bókun var samþykkt samhljóða:

Stjórn Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga lýsir yfir miklum áhyggjum af þeirri stöðu sem komin er upp í sveitarfélögum allt í kringum landið í tengslum við verkfall sjómanna. Verkfallið hefur nú staðið í u.þ.b tvo mánuði og er farið að hafa mikil áhrif sem ekki einungis ná til samningsaðila, heldur einnig stöðu landverkafólks og þeirra sem vinna óbein störf í sjávarútvegi og eru ekki aðilar að kjarasamningi sjómanna og útgerðarmanna. Í jafn mikilvægri atvinnugrein og sjávarútvegi, er ábyrgð aðila mikil. Ljóst er að staðan er þegar orðin alvarleg í mörgum sjávarútvegssveitarfélögum og stefnir í óefni að óbreyttu.

Stjórn Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga hvetur samningsaðila og ríkisstjórn Íslands til að leita allra leiða til að liðka fyrir lausn málsins, þannig að koma megi í veg fyrir frekara tekjutap þjóðarbúsins í heild sinni.

Víðtæk áhrif verkfalls sjómanna

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið sendi í síðustu viku frá sér skýrslu þar sem lagt er mat á þjóðhagslegan kostnað af verkfalli sjómanna. Skýrslan er unnin að tilstuðlan sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sem skipaði nefnd fulltrúa úr fjórum ráðuneytum auk fulltrúa frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og sérfræðingum frá Íslenska sjávarklasanum.

Svo vitað sé er skýrsla þessi fyrsta tilraunin sem gerð er til að ná utan um þau efnahagslegu áhrif sem víðtæk vinnustöðvun meðal sjómanna, og þar af leiðandi mjög víðtæk framleiðslustöðvun í íslenskum sjávarútvegi, hefur á íslenska hagkerfið.

Í samandregnum niðurstöðum skýrslunnar kemur m.a. fram að áhrifa verkfallsins gætir víða og snertir fjárhagslega hagsmuni fjölmargra fyrirtækja, kjör ýmissa stétta og fjármál hins opinbera til skemmri og lengri tíma. Áhrifanna gætir með nokkuð misjöfnum hætti en gróflega áætlað tekjutap sveitarfélaga vegna lækkaðra útsvarsgreiðslna fiskverkafólks og sjómanna til 10. febrúar sl. er metið á rétt ríflega 1000 milljónir króna.